[sam_zone id=1]

Ítalía fór létt með Þýskaland

Það er nóg um að vera á EM karla þessa dagana og er nú ljóst hvaða fjögur lið standa eftir í undanúrslitum mótsins.

Útsláttarkeppnin hófst um síðustu helgi með 16-liða úrslitunum og nú er 8-liða úrslitum einnig lokið. Tveir leikir fóru fram á þriðjudag og hinir tveir í gær, miðvikudag. Í fyrsta leiknum mættust Holland og Serbía en þrátt fyrir að leikurinn hafi verið jafn unnu Serbar 3-0 sigur. Serbar eru ríkjandi Evrópumeistarar og eru til alls líklegir á þessu móti. Þeirra bíður hins vegar erfitt verkefni á móti spræku liði Ítalíu.

Ítalía vann afar sannfærandi 3-0 sigur gegn Þýskalandi en í lið Ítalíu vantar fjölmarga leikmenn sem hafa leikið með liðinu undanfarin ár. Væntingarnar voru því ekki miklar fyrir mót en liðið hefur slegið í gegn það sem af er móti. Þá vann Pólland öruggan 3-0 sigur gegn Rússlandi en Pólverjar hafa litið afar vel út allt mótið og leika auk þess á heimavelli. Allir leikir sem eftir eru móts fara fram í Katowice, Póllandi.

Í fjórða og síðasta leik 8-liða úrslitanna mættust Tékkland og Slóvenía en Tékkar höfðu slegið stórlið Frakklands út í 16-liða úrslitunum. Þeir náðu sér hins vegar ekki á strik gegn Slóveníu sem lék jafnframt vel. Slóvenar unnu leikinn 3-0 og mæta Póllandi í undanúrslitum.

Undanúrslitin fara fram laugardaginn 18. september en úrslitaleikurinn og bronsleikurinn fara fram sunnudaginn 19. september.

8-liða úrslit

Holland 0-3 Serbía (23-25, 20-25, 25-27). Nimir Abdel-Aziz var yfirburðamaður í liði Hollands og skoraði 14 stig en næstir komu Gijs Jorna og Bennie Tuinstra með 7 stig hvor. Uros Kovacevic skoraði 15 stig fyrir Serbíu en Drazen Luburic kom næstur með 11 stig.

Pólland 3-0 Rússland (25-14, 26-24, 25-19). Eins og oft áður voru Bartosz Kurek og Wilfredo Leon stigahæstir í liði Póllands en þeir skoruðu 14 stig hvor. Egor Kliuka skoraði sömuleiðis 14 stig fyrir Rússland og Fedor Voronkov bætti við 9 stigum.

Ítalía 3-0 Þýskaland (25-13, 25-18, 25-19). Alessandro Michieletto var frábær í liði Ítalíu og skoraði 13 stig en næstir komu Daniele Lavia með 12 stig og Giulio Pinali með 11 stig. Þessir þrír hafa leikið risastór hlutverk í ungu liði Ítalíu. Moritz Karlitzek skoraði 11 stig fyrir Þýskaland og Linus Weber bætti við 8 stigum.

Tékkland 0-3 Slóvenía (21-25, 19-25, 25-27). Jan Galabov var stigahæstur hjá Tékklandi með 13 stig en Jan Hadrava skoraði 12 stig. Toncek Stern var magnaður í liði Slóveníu og skoraði 19 stig en næstur kom Tine Urnaut með 13 stig.

Undanúrslit

Laugardagur 18. september   15:30     Pólland – Slóvenía

Laugardagur 18. september   19:00     Serbía – Ítalía