[sam_zone id=1]

Íslensku U-19 liðin á leið til Finnlands

Norðurlandamót U-19 landsliða fer fram í Finnlandi um helgina og nú snemma í morgun lagði íslenski hópurinn af stað.

Dagurinn hófst með rútuferð frá íþróttamiðstöð ÍSÍ út á flugvöll í Keflavík þaðan sem hópurinn flýgur til Vaasa, með millilendingu í Stokkhólmi. Rúta kemur hópnum svo á áfangastað í Kuortane en búist er við komu um kvöldmatarleytið. Mótið hefst ekki fyrr en á föstudag svo að fimmtudagur verður nýttur til æfinga.

Í bæði karla- og kvennaflokki eru 7 þjóðir sem taka þátt og eru það Ísland, Finnland, Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Færeyjar og England. Leikið verður í tveimur riðlum þar sem að íslensku strákarnir eru í fjögurra liða riðli með Englandi, Finnlandi og Danmörku. Stelpurnar eru hins vegar í þriggja liða riðli með Noregi og Svíþjóð.

Íslensku strákarnir byrja gegn Finnlandi á föstudag og hefst leikurinn klukkan 9:00 á íslenskum tíma. Þeir mæta svo Danmörku klukkan 13:00 seinna um daginn. Stelpurnar ljúka sínum leikjum í riðlakeppninni á föstudag þar sem að þær mæta Svíþjóð klukkan 11:00 og Noregi klukkan 15:00. Þriggja tíma mismunur er milli Íslands og Finnlands en allir tímar sem hér eru teknir fram miðast við Ísland.

Umspil hefst seinnipart laugardags og mótinu lýkur svo á sunnudag þegar leikið verður um sæti. Leikmannahópa, auk þjálfara, má finna með því að smella hér. Dómarar Íslands á mótinu eru Sævar Már Guðmundsson, alþjóðadómari, og Árni Jón Eggertsson.