[sam_zone id=1]

Íslandsmeistarar krýndir í Laugardal

Íslandsmótinu í strandblaki lauk í dag þegar spilað var til úrslita í öllum deildum.

Íslandsmótið hófst á föstudag og hélt áfram á laugardag og sunnudag. Á sunnudegi var leikið til úrslita í öllum deildum en þær voru alls fjórar kvennamegin og tvær karlamegin. Til úrslita í karlaflokki léku Piotr Kempisty og Rapolas Berzinis gegn Austris Bukovskis og Emil Gunnarssyni. Þeim leik lauk með 2-1 sigri Emils og Austris og eru þeir því Íslandsmeistarar 2020 í karlaflokki.

Kvennamegin mættu Thelma Dögg Grétarsdóttir og Michelle Traini þeim Matthildi Einarsdóttur og Söru Ósk Stefánsdóttur. Matthildur og Sara unnu úrslitaleikinn 2-0 og tryggðu sér þar með Íslandsmeistaratitilinn 2020. Stigameistarar voru einnig krýndir í karla- og kvennaflokki sigraði Janis Novikovs karlamegin en hann fékk alls 405 stig. Kvennamegin voru Sara og Matthildur stigahæstar með 540 stig af 550 mögulegum.

Öll úrslit helgarinnar og niðurstöður deilda má nálgast á vefsíðunni stigakerfi.net og þar má einnig sjá stigastöðu sumarsins.

Mynd : Stefán Jökull Jakobsson