[sam_zone id=1]

Ísland náði í gullið

Ísland mætti Færeyjum í úrslitaleik á Smáþjóðamóti U-19 á Laugarvatni í dag.

Íslensku stelpurnar unnu fyrstu tvo leiki sína afar sannfærandi gegn Gíbraltar og Möltu en Færeyjar unnu sína leiki sömuleiðis gegn þessum sömu liðum. Því var komið að hreinum úrslitaleik í dag þegar Ísland og Færeyjar mættust. Fyrr um daginn hafði Malta unnið 3-0 (25-18, 27-25, 25-8) sigur gegn Gíbraltar og hreppti lið Möltu því bronsverðlaun á mótinu.

Færeyska liðið byrjaði betur í dag og leiddi framan af fyrstu hrinu leiksins. Ísland saxaði smám saman á forystuna og var allt orðið jafnt um miðja hrinu, 14-14. Ísland virtist svo ætla að sigla sigrinum heim en þær færeysku áttu góðan lokakafla. Ísland slapp með skrekkinn og vann 24-26 og leiddi því 0-1.

Sömu sögu var að segja í byrjun annarrar hrinu. Færeyjar höfðu nokkurra stiga forystu og ekki batnaði það þegar leið á hrinuna. Færeyjar leiddu 12-4 og íslenska liðið átti erfitt uppdráttar. Ísland náði að minnka muninn aðeins undir lokin en það kom ekki í veg fyrir sigur Færeyja sem unnu hrinuna 25-17.

Í þriðju hrinu var loks komið að því að Ísland byrjaði betur. Færeyska liðið hélt nokkuð vel í við þær íslensku en forskotið var hins vegar yfirleitt um 4-5 stig. Ísland vann hrinuna nokkuð örugglega, 20-25, og virtist hafa nokkuð góð tök á leiknum. Fjórða hrina gekk einnig vel til að byrja með en um miðja hrinuna tóku Færeyjar forystuna. Ísland missti taktinn eftir það og Færeyjar unnu örugglega, 25-18. Úrslitaleikurinn fór því alla leið í oddahrinu þar sem úrslitin réðust.

Færeyska liðið byrjaði af miklum krafti í oddahrinunni og náði 4-1 forystu. Ísland sneri dæminu við og skiptu liðin um vallarhelming í stöðunni 6-8 fyrir Ísland. Liðið hélt góðu spili áfram eftir skiptin og vann sannfærandi 10-15 sigur. Ísland vinnur því til gullverðlauna eftir þrjá sigra um helgina.