[sam_zone id=1]

Ísland hóf leik á NEVZA

Landslið Íslands í flokki U-17 hófu leik á Norður-Evrópumóti í dag þegar bæði karla- og kvennaliðið léku í Ikast.

Landsliðin mættu til Ikast í gær en Danir hafa ófáu sinnum haldið mótið í smábænum. Leikmannahópa liðanna má sjá með því að smella hér. Kvennaliðið lék tvo leiki í dag en drengirnir léku einn leik. Þetta snýst svo við á morgun þegar drengirnir spila tvo leiki og stelpurnar einn. Liðin sem taka þátt þetta árið auk Íslands eru Noregur, Danmörk og Færeyjar.

U-17 kvenna

Fyrsti leikur dagsins hjá stelpunum var gegn Danmörku sem byrjaði af miklum krafti. Íslensku stelpurnar töpuðu fyrstu hrinunni 25-18 en gerðu enn betur í annarri hrinu sem lauk 25-21, Danmörku í vil. Þriðju hrinu unnu Danir 25-17 sem tryggði þeim 3-0 sigur í leiknum. Seinni leikur dagsins var svo gegn liði Færeyja og þar náðu stelpurnar sér vel á strik.

Ísland byrjaði leikinn afar vel og vann fyrstu hrinu auðveldlega, 25-11. Þær færeysku svöruðu fyrir sig í annarri hrinu og unnu 17-25 sigur en eftir það var Ísland mun betra liðið. Íslensku stelpurnar unnu næstu tvær hrinur, 25-18 og 25-16, sem tryggði þeim 3-1 sigur í leiknum. Þær eiga því enn möguleika á efstu tveimur sætum riðilsins sem gefa sæti í úrslitaleiknum. Liðin í 3. og 4. sæti leika um bronsið en úrslitaleikir og bronsleikir fara fram á miðvikudag.

Leikur Íslands og Noregs, sem fram fer á morgun, hefst klukkan 13:00 á íslenskum tíma.

Hópur U-17 landsliðs drengja, NEVZA 2021.

U-17 karla

Drengirnir hófu mótið einnig á leik gegn Danmörku en danska liðið reyndist afar erfitt viðureignar. Þeir dönsku unnu 3-0 sigur (25-13, 25-7, 25-14) en það verður nóg um að vera hjá íslenska liðinu á morgun þegar drengirnir mæta Færeyjum snemma morguns og Noregi seinna um daginn. Ísland mætir Færeyjum klukkan 7:00 á íslenskum tíma og Noregi klukkan 15:00.