[sam_zone id=1]

Hylte/Halmstad leikur um brons eftir tap gegn Örebro

Hylte/Halmstad mætti í kvöld Örebro á heimavelli sínum í fjórða leik liðanna í undanúrslitum sænsku úrslitakeppninnar. Hylte/Halmstad þurfti á sigri að halda í leiknum til að knýja fram oddaleik gegn Örebro.

Fyrsta hrina leiksins var jöfn og spennandi og ljóst að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt í leiknum. Hylte/Halmstad átti þó í vandræðum með góðar uppgjafir Örebro í leiknum og gerði það þeim erfitt fyrir í sóknaleiknum. Örebro vann á endanum fyrstu hrinuna 25-22 eftir mikla baráttu,

Önnur hrinan var keimlík þeirri fyrstu, lítið sem skildi á milli liðanna og bæði lið að sýna fína takta. Þegar á reyndi voru Örebro þó betri en þær virkuðu aðeins einbeittari og áttu aðeins auðveldara með að koma boltanum í gólfið hjá andstæðingum sínum. Örebro vann einnig aðra hrinuna 25-21 og voru komnar í góða stöðu í leiknum.

Hylte/Halmstad virtist gefast upp í þriðju hrinunni eftir að hafa tapað þessum tveimur fyrstu hrinum. Móttakan var farinn hjá liðinu og þær höfðu ekki lengur trú á verkefninu. Örebro vann síðustu hrinuna nokkuð öruggt 25-14 og vann þar með 3-0 sigur.

Örebro eru því komnar í úrslit en Hylte/Halmstad mæta núna Lindesberg í tveimur leikjum um þriðja sætið í Svíþjóð.

Jóna Guðlaug var að vanda í byrjunarliði Hylte/Halmstad en hún skoraði 14 stig og var stigahæst í sínu liði. Það var hinsvegar Carly De Hoog sem var atkvæðamest á vellinum með 16 stig.

Nánari tölfræði úr leiknum má nálgast hér.