[sam_zone id=1]

Hylte/Halmstad bikarmeistari í Svíþjóð

Hylte/Halmstad lið Jónu Guðlaugar tryggði sér í dag sænska bikarinn eftir 3-1 sigur á Engelholm í úrslitaleik.
Bikarinn er með aðeins öðruvísi sniði í Svíþjóð en það eru fjögur efstu liðin í deildinni sem mætast á þessari bikarhelgi.

Hylte/Halmstad sigraði Sollentuna örugglega í undanúrslitum í gær og Engelholm sigraði fyrrverandi lið Jónu, Örebro einnig 3-0 í gær.

Engelholm voru ákveðnar í byrjun leiks og ljóst að þær ætluðu að gefa allt í leikinn en Hylte/Halmstad hafa verið ósigrandi í vetur og ekki enn tapað hrinu í deildinni. Það tók þó enda í dag þar sem Engelholm sigraði fyrstu hrinuna 23-25.
Önnur hrinan var einnig spennandi en þar voru Hylte/Halmstad þó sterkari og unnu hrinuna 25-21.

Eftir þetta virtist allur vindur úr liði Engelholm og Hylte/Halmstad gengu á lagið og hreinlega völtuðu yfir næstu tvær hrinur sem enduðu 25-14 og 25-13. Þar með unnu Hylte/Halmstad leikinn 3-1 og eru bikarmeistarar 2021.

Jóna Guðlaug var í byrjunarliði Hylte/Halmstad og skoraði hún 10 stig í leiknum, það var hinsvegar liðsfélagi hennar Hanna Hellvig sem var atkvæðamest með 24 stig.

Nánari tölfræði um leikinn má finna hér.