[sam_zone id=1]

Hverjir verða Íslandsmeistarar kvenna 2019?

Úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna ráðast í dag þegar KA og HK mætast í fimmta leik liðanna í úrslitaeinvígi sínu. Bæði lið hafa unnið tvo leiki og því er þetta hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn.
Að því tilefni fengum við nokkra valinkunna einstaklinga úr blakinu hér heima til að spá fyrir um úrslit leiksins og sjá hvernig leikurinn í dag legst í það.

Magnús Aðalsteinsson, fyrrum landsliðsþjálfari í blaki.

Hér spái ég sigri hjá KA konum. Er ekki alveg viss hvort það verður 3-1 eða 3-2. Held að ef KA liðið nái sér á strik og spili vel þá vinni þær þetta, þ.e. lykilleikmenn stígi fram og taki af skarið núna. Fannst aðeins vanta bitið í þær í síðasta leik en hef trú á því á heimavelli taki þær þetta. En held að leikurinn verði mjög jafn og vinnist að hámarki með 8 stigum, það er allar hrinur verða mjög jafnar og leikurinn vel spilaður. Emil er með ungt lið í HK sem getur vel unnið þetta ef KA gefur þeim tækifæri á því en held að reynsla KA kvenna vinni þetta að lokum.

Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, fyrrverandi leikmaður Þróttar Nes. og landsliðsins í blaki.

Ég býst við hörkuleik hjá þessum liðum þar sem barist verður fyrir hverju stigi og hverri hrinu. Mikið jafnræði verður með liðunum en leikurinn mun þó sennilega fara 3 – 2 fyrir KA. Ég geri ráð fyrir að KA stúlkur komi mun einbeittari til leiks en þær hafa verið í síðustu tveimur leikjum. En þær þurfa að berjast fyrir sigrinum og virkilega vilja sigra því HK stúlkur eru búnar að sýna okkur frábært blak í síðustu leikjum og að þær vilja svo sannarlega ná Íslandsmeistaratitlinum.

Ingólfur Hilmar Guðjónsson, fyrverandi landsliðsmaður og núverandi þjálfari Þróttar R.

Þetta verður hörkuleikur milli tveggja sterkustu liðar deildarinnar en 3-2 fyrir KA held ég nema að Emil dragi kanínu úr hattinum.
Það mun mæða mikið á lykillleikmönnum liðanna og þurfa Elísabet hjá HK og Helena hjá KA að eiga góðan leik fyrir sín lið ætli þau sér sigur í dag.

Sunna Þrastardóttir, leikmaður Þróttar R. og lýsandi á Sporttv.

Hérna bjóst ég við 3-0 sigri KA kvenna, sérstaklega eftir meiðslaskorpu hjá HK. En HK stúlkur og Emil hafa leyst þetta verkefni vel og eru búin að byggja upp öflugan varamannabekk.

KA stúlkur byrjuðu rimmuna mjög örugglega og ætluðu sér að lyfta bikar eftir 3 leiki og voru kannski örlítið sigurvissar og hafa hægt á í síðustu leikjum. Ég flakka á milli þess að spá KA og HK sigri í þessum leik. HK stúlkur eru núna komnar með blóðbragð í munninn eftir að hafa unnið síðustu tvo leiki. Aftur á móti er KA heimilið sterkur heimavöllur og KA stúlkum myndi ekki þykja leiðinlegt að lyfta bikar þar.

Þó að liðin sé mismunandi upp byggð er hrikalega lítill getumunur á þeim. KA stúlkur hafa fleiri sterka sóknarmöguleika á meðan að sóknarþunginn hjá HK hvílir á herðum Elísabetar og Hjördísar, sem gerir sóknarleik HK kannski dálítið brothættan.

Ég held að þetta verði mjög tæpur leikur og að það lið vinni sem gerir færri mistök, eins hundleiðinlegt það er að segja það. Það sem gæti haft mikið að segja er það hvernig leik Luz Medina á. Ef hún á jafn sterkan leik og hún átti t.d. í bikarnum, þá lenda HK stúlkur í bullandi vandræðum.

Þetta er hrikalega erfitt finnst mér. En ég spái HK 3-1 sigri í þessum leik, aðalega vegna þess að þær hafa hreinlega litið betur út en KA í síðustu tveimur leikjum. Ef leikurinn fer hins vegar í odd þá tekur KA oddahrinuna á reynslunni….má ekki spá svona eða?

Við þökkum þessum spámönnum kærlega fyrir hjálpina og það verður spennandi að sjá hverjir hafa rétt fyrir sér.