[sam_zone id=1]

Hverjir verða Íslandsmeistarar karla 2019?

Úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn í blaki karla ráðast í dag þegar KA og HK mætast í fimmta leik liðanna í úrslitaeinvígi sínu. Bæði lið hafa unnið tvo leiki og því er þetta hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn.
Að því tilefni fengum við nokkra valinkunna einstaklinga úr blakinu hér heima til að spá fyrir um úrslit leiksins og sjá hvernig leikurinn í dag legst í það.

Magnús Aðalsteinsson, fyrrum landsliðsþjálfari í blaki.

Hér held ég að KA vinni 3-1. KA eru búnir að vera mjög góðir í ár og spila vel. Ef þeir ná að einbeita sér að leiknum og spila sinn leik þá held ég að þeir taki þetta 3-1, vinni fyrstu hrinu nokkuð öruggt, tapi hrinu númer 2 eftir upphækkun en vinni svo næstu 2 með 3-4 stiga mun. En HK menn hafa verið frískir í úrslitunum og geta sett strik í reikninginn ef þeir ná sínum besta leik en þetta er mín spá.

Þorbjörg Ólöf Jónsdóttir, fyrrverandi leikmaður Þróttar Nes. og landsliðsins í blaki.

Þetta verður mikill baráttuleikur þar sem spennustigið gæti orðið nokkuð hátt. Ég spái því að hann fari 2 – 3 fyrir HK. Bæði liðin hafa mjög góða leikmenn sem geta skilað sínum liðum mörgum stigum en HK hefur meiri breidd en KA og tel ég að hún geti skipt miklu máli í þessum úrslitaleik.

Ingólfur Hilmar Guðjónsson, fyrverandi landsliðsmaður og núverandi þjálfari Þróttar R.

Uuu þessi leikur verður eitthvað, erfitt að dæma en ég held spá minni frá fyrri leik, um 3-2 fyrir KA. Sterkar uppgjafir HK eru vesen fyrir KA en Filip og Mateo saman eru of góðir fyrir HK.

Sunna Þrastardóttir, leikmaður Þróttar R. og lýsandi á Sporttv.

Áður að úrslitin hófust gerði ég ráð fyrir þægilegum 3-0 sigri KA manna, enda hefur liði sýnt mikla yfirburði alla leiktíðina. En HK menn eru bara að toppa á réttum tíma og kannski fóru KA menn aðeins of sigurvissir inn í þessa rimmu.

KA menn eru með betra lið, getulega séð, að mínu mati. Fleiri kanónur sem geta skilað úr öllum stöðum. En til þess að vinna leikinn verða þeir að koma öllum í gang og hafa móttökuna í lagi til að nýta miðjurnar. Það hefur farið mismikið fyrir þeim í þessum leikjum sem við höfum séð.

Það sem ég held að HK menn hafi umfram KA er hausinn. Ég man ekki eftir að hafa séð þá hengja haus í þessum leikjum. En um leið og á móti blæs hjá KA eiga þeir það til að verða pirraðir og hvæsa á hvern annan, eða þannig lítur þetta út frá áhorfendapöllunum séð. Ef HK menn nýta sér þetta og Teddi og Benni verða í stuði þá sjáum við hörkuleik.

En það sem ég held að muni ráða úrslitum er hreinlega gríðarlega sterkur heimavöllur fyrir norðan. Þó að ég hafi yfirleitt takmarkaða trú á því að keppnisstaður hafi eitthvað að segja, þá hef ég tekið eftir því hvernig KA menn peppast upp í KA heimilinu. Þó svo að HK hafi sigrað síðasta leik þar, þá held ég að KA menn muni taka leikinn 3-1.  

Við þökkum þessum spámönnum kærlega fyrir hjálpina og það verður spennandi að sjá hverjir hafa rétt fyrir sér.