[sam_zone id=1]

Hvað verður um Steinöld 2020 ?

Eins og flestum er kunnugt um þá er búið að fresta Öldungamóti BLÍ, Steinöld 2020 en mótið átti að fara fram í lok apríl. Sökum Covid-19 faraldursins var ákveðið að fresta mótinu fram í seinni hluta september.

Mótsnefnd Steinaldar gaf hinsvegar frá sér tilkynningu á dögunum þar sem að sökum nýrra upplýsinga um Covid-19 faraldurinn þyrfti að endurskoða þá breytingu:

Frá því að sú ákvörðun lá fyrir hafa reglulega komið fram nýjar upplýsingar um framþróun faraldsins og í ljósi þeirra upplýsinga hefur mótsnefnd Steinaldar og stjórn BLÍ verið með til umfjöllunar að endurskoða ákvörðun um dagsetningu Steinaldar.

Nú er því spurning, hvað verður um Steinöld 2020 ?

Blakfréttir settu af stað skoðunarkönnun á facebook síðu Blakfrétta þann 4.apríl og var þar spurt hvort ætti að halda mótið í september eða fresta því um eitt ár. Alls bárust 500 atkvæði og var kosningin nokkuð afgerandi þar sem 78% kusu um frestun um eitt ár. Það er því nokkuð ljóst að blakarar virðast vera nokkuð sammála um það að fresta ætti mótinu um eitt ár í stað þess að spila það í september.

Þá vakna eðlilega upp fleiri spurningar. Nú er þegar búið að ákveða hvaða lið eigi að halda öldungamótið árið 2021 og er þar mögulega farin af stað vinna við undirbúning á því móti. Skiljanlega vakna því upp spurningar hvort Steinöld eigi að fara fram árið 2021 eða hvort mótið ætti í raun að færast til ársins 2022 svo ekki þurfi að færa til tvö mót. Svo er eflaust hægt að velta því fyrir sér hvort það sé í raun hægt að “fresta” mótinu mikið meira eða hvort það þurfi ekki hreinlega að aflýsa Steinöld 2020 en á dögunum ákvað Blaksambandið að blása af restina af tímabilinu 2019-2020 en Steinöld er vissulega partur af því tímabili.

Blaksambandið hefur nú þegar tekið þá ákvörðun að leiktímabilið 2019-2020 sé lokið og því ekki spilað til úrslita í neinni keppni. Því vaknar sú spurning hvort Öldungamót BLÍ ætti ekki heima í þessari ákvörðun og hvort það væri ekki skynsamlegast að blása af Öldungamót BLÍ árið 2020.

Hver sem sú ákvörðun verður sem tekin verður af mótanefnd Steinaldar og stjórn Blaksambandsins þá verður sú ákvörðun ekki auðveld en mót sem þetta er auðvitað gífurlega stór fjáröflun fyrir það félag sem heldur mótið.