[sam_zone id=1]

Hlé á íþróttastarfi

Líkt og kom fram á fundi ríkisstjórnar í dag verður gert hlé á íþróttastarfi næstu 3 vikurnar og er blakið því komið í páskafrí.

Tveir leikir voru á dagskrá í Mizunodeildunum í kvöld en þeim var báðum frestað vegna ástandsins. Hertar reglur taka gildi á miðnætti og er áætlað að þær gildi í þrjár vikur. Það er því ljóst að næstu vikur verða afar mikilvægar fyrir framhaldið í blakinu sem og öðrum íþróttum en síðustu vikur hefur keppni farið nokkuð eðlilega fram í efstu deildunum.

Samkvæmt núverandi skipulagi blaksambandsins átti Mizunodeildunum að ljúka undir lok apríl og þá átti að fara beint í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn. Þar verða eflaust einhverjar breytingar á enda óljóst hvort hægt verði að hefja keppni að nýju í apríl. Við verðum því að líta út fyrir landsteinana í bili og njóta blaks annars staðar frá.

Evrópudeildir

Ýmsar deildir í Evrópu eru í fullum gangi og þar er meðal annars að finna nokkra Íslendinga. Ævarr Freyr Birgisson og Galdur Máni Davíðsson leika þessa dagana í undanúrslitum dönsku úrslitakeppninnar með liði sínu Marienlyst og Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir er í sömu stöðu með sænska stórliðinu Hylte/Halmstad. Marienlyst leikur næst á morgun þegar þeir mæta Middelfart í annað sinn en Hylte/Halmstad bíða nú eftir andstæðingum sínum í undanúrslitum.

Máni Matthíasson leikur með TV Bliesen og á liðið tvo leiki um komandi helgi. Þeir mæta Friedrichshafen 2 á laugardag og Mimmenhausen á sunnudag. Eftir þessa leiki á liðið fjóra leiki eftir í deildakeppninni. Í Búlgaríu er svo nóg um að vera hjá Hristiyan Dimitrov sem leikur með liði Dobrudja sem mætir Neftohimic Burgas í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar þar í landi. Þessi sömu lið mættust í bikarúrslitum í síðustu viku þar sem að Burgas hafði betur í oddahrinu. Burgas vann einnig fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninni sem fram fór í gær en liðin mætast næst á föstudag, þann 26. mars.

Meistaradeildir karla og kvenna eru langt komnar og í kvöld lýkur undanúrslitunum karlamegin með leik Perugia og Trentino. Zaksa hafði nú þegar unnið Zenit Kazan í hinum einvíginu karlamegin og tryggt sér sæti í úrslitum. Kvennamegin komst lið Conegliano örugglega í úrslitaleikinn með því að vinna gegn Novara og í hinu einvíginu hafði Vakifbank betur gegn Busto Arsizio.

CEV Cup og CEV Challenge Cup eru aukadeildir sem leiknar eru meðfram Meistaradeildunum. Liðin þar eru á mörkum þess að komast í Meistaradeildina og fara því margir hörkuleikir fram þar. Karlamegin lýkur keppni í CEV Cup á morgun þegar Dinamo Moscow og Zenit Petersburg mætast öðru sinni en í dag voru Milano krýndir meistarar í CEV Challenge Cup.

Þessum deildum lauk í vikunni kvennamegin en í gær tryggði Monza sér titilinn í CEV Cup kvenna með sigri gegn Galatasaray. Í úrslitum Challenge Cup mættust lið Yesilyurt frá Tyrklandi og Alba Blaj frá Rúmeníu. Þar hafði Yesilurt betur og vann tvo örugga sigra.