[sam_zone id=1]

HK vann aftur á Akureyri

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeildunum þetta föstudagskvöldið en KA og HK mættust í spennandi leik kvennamegin.

Í Mizunodeild kvenna var spennandi leikur á dagskrá þar sem að lið HK fór norður og mætti KA. HK var fyrir leikinn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga, 12 stig eftir fjóra leiki, en KA í þriðja sætinu með 8 stig eftir fimm leiki. Heimavöllur KA hefur þó verið ansi sterkur undanfarin ár og var því hægt að búast við spennandi og skemmtilegum leik. Leikurinn byrjaði eins og við var að búast en HK seig fram úr um miðja hrinu og vann fyrstu hrinuna örugglega, 16-25, eftir að hafa skorað sex síðustu stig hrinunnar.

Önnur hrinan var einnig spennandi til að byrja með en að þessu sinni náði hvorugt liðið að slíta sig frá hinu. Mestur var munurinn einungis þrjú stig og að lokum vann KA 25-23 og jafnaði leikinn 1-1. Mireia Orozco og Paula Del Olmo Gomez fóru fyrir liði KA en hjá HK var Michelle Traini geysiöflug. KA hélt góðu gengi úr 2. hrinu áfram og hafði 14-9 forystu þegar endurkoma HK hófst. HK skoraði sex stig í röð og tók 14-15 forystu en lokakaflinn virtist ætla að verða æsispennandi. Aftur skoraði HK fimm stig í röð stuttu seinna og dugði það til að vinna hrinuna 22-25.

Í fjórðu hrinunni skiptust liðin á að hafa forystuna en hvorugt liðið gaf tommu eftir. Undir lokin var hnífjafnt og síðustu stig hrinunnar voru æsispennandi. HK tók nauma forystu en KA jafnaði alltaf skömmu síðar. Lið HK reyndist sterkara undir lok hrinunnar og vann 25-27 og tryggði sér þar með 1-3 sigur á Akureyri í annað sinn á þessu tímabili.

HK er því enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar en liðið er nú með 15 stig eftir fimm leiki. KA er enn í þriðja sæti deildarinnar með 8 stig eftir sex leiki og þarf liðið að gera betur ef það ætlar að verja deildarmeistaratitil sinn. Lið HK, Aftureldingar og KA eru þó mjög jöfn og enn margir leikir eftir af tímabilinu.

Á laugardag mætast Þróttur Fjarðabyggð og Afturelding í Mizunodeild kvenna en leikurinn hefst kl. 13:00 í Neskaupstað. Blakdeild Þróttar Neskaupstað tilkynnti í vikunni um samning við sveitarfélagið Fjarðabyggð og mun liðið bera nafnið Þróttur Fjarðabyggð út þetta tímabil auk næstu tveggja. Afturelding er mun sigurstranglegra en Þróttur náði þó í tvo sigra gegn Þrótti Reykjavík um síðustu helgi. Þá mætast Þróttur R og Álftanes kl. 15:00 á laugardag og fer sá leikur fram í Digranesi. Liðin eru í 5. og 6. sæti deildarinnar en geta með sigri komist upp í 4. sæti deildarinnar.

Karlamegin mættust Fylkir og Vestri í Fylkishöll. Lið Fylkis átti fínan leik gegn KA síðustu helgi og var grátlega nálægt því að ná í sitt fyrsta stig á tímabilinu. Lið Vestra hafði einungis spilað tvo leiki í deildinni en annar þeirra var sigur gegn Þrótti Nes og hinn tap gegn Hamri. Gestirnir voru því fyrirfram taldir líklegri en heimamenn aftur á móti staðráðnir í að ná í stig í Mizunodeildinni.

Gestirnir frá Ísafirði byrjuðu leikinn mjög vel og náðu smám saman að byggja upp forskot í fyrstu hrinunni. Mestur var munurinn sjö stig en að lokum vann Vestri hrinuna 19-25 og tók forystuna í leiknum. Önnur hrinan var jöfn frá upphafi og Fylkismenn gerðu vel að halda í við gestina þó að Vestri hefði naumt forskot. Fylkir leiddi 23-22 undir lokin en lið Vestra gerði vel og tryggði sér 24-26 sigur.

Í þriðju hrinunni tóku gestirnir völdin og náðu strax þægilegu forskoti. Þeir leiddu alla hrinuna og varð munurinn mestur sjö stig um miðja hrinuna. Fylkir lét það ekki á sig fá og minnkaði muninn hratt undir lokin. Þeir náðu þó ekki að klára endurkomuna og Vestri vann hrinuna 22-25. Vestri vann leikinn þar með 0-3 og vann annan sigur sinn í einungis þremur leikjum. Eina tap liðsins kom gegn toppliði Hamars.

Helgin verður löng hjá liði Vestra en kl. 13 á sunnudag mætir liðið HK í Fagralundi. Tveir aðrir leikir fara fram í Mizunodeild karla um helgina og fara þeir báðir fram á laugardag. Álftanes á heimaleik gegn KA kl. 16:00 og á sama tíma mætast Þróttur Fjarðabyggð og Þróttur Vogum í Neskaupstað.

Úrslit kvöldsins

Mizunodeild kvenna

KA 1-3 HK (16-25, 25-23, 22-25, 25-27). Paula Del Olmo Gomez var stigahæst í liði KA með 24 stig og Mireia Orozco kom næst með 13 stig. Hjá HK skoraði Michelle Traini 23 stig en Hjördís Eiríksdóttir og Hanna María Friðriksdóttir bættu við 12 stigum hvor.

Mizunodeild karla

Fylkir 0-3 Vestri (19-25, 24-26, 22-25). Roberto Guarino var stigahæstur hjá Fylki með 8 stig og Bjarki Benediktsson skoraði 7 stig. Hjá Vestra var Álvaro Cunedo Gonzáles Gonzáles stigahæstur með 12 stig en Felix Arturo Vazques Aguilar bætti við 11 stigum.

Mynd : A & R Photos