[sam_zone id=1]

HK og Þróttur/Fjarðabyggð með góða sigra

Tveir leikir fóru fram í Úrvalsdeildum karla og kvenna í gær en þá mættust Þróttur/Fjarðabyggð og Völsungur í úrvalsdeild kvenna í Neskaupsstað á meðan Þróttur V. tók á móti HK í úrvalsdeild karla.

Þróttur/Fjarðabyggð sem er um miðja deild mætti botnliði Völsungs í gærkvöldi. Völsungur á enn eftir að vinna leik í deildinni í vetur en Þróttur/Fjarðabyggð er í hörkubaráttu við HK og Álftanes um þriðja sætið í deildinni.
Leikurinn byrjaði vel fyrir Þrótt/Fjarðabyggð og var eins og Völsungsstelpur væru ekki tilbúnar í byrjun leiks. Þróttur/Fjarðabyggð fór létt með fyrstu tvær hrinur leiksins þar sem Völsungur veitti ekki mikla mótspyrnu og vann þær örugglega 25-12 og 25-12.
Völsungsstelpur mættu betur stemmdar til leiks í þriðju hrinu staðráðnar í að gera betur. Það var allt annað að sjá Völsungsliðið í þessari hrinu og sýndu þær að þær geta vel staðið í liðunum í þessari deild. Hrinan var hörkuskemmtun en það voru þó heimakonur í Þrótti/Fjarðabyggð sem að unnu hrinuna 25-20 og leikinn þar með 3-0.

Stigahæst í leiknum var Kyisha Racole Hunt hjá Völsungi með 19 stig en stigaskorið dreifðist aðeins meira hjá Þrótti/Fjarðabyggð þar sem Heiða Elísabet og Paula De Blaz voru með 13 stig hvor.

Þróttur/Fjarðabyggð fer þar með upp í fjórða sætið í deildinni þrem stigum á eftir HK og eiga þær einnig leik inni á HK og ljóst að það verður mikil spenna um miðja deild. Völsungur sitja enn á botninum án stiga eftir fimm leiki og eiga enn eftir að vinna hrinu í vetur.

Í hinum leiknum voru það Þróttur V. og HK sem mættust, gengi liðanna í vetur hefur verið ólíkt en HK er í toppbaráttunni og hefur einungis tapað einum leik á meðan Þróttur V. sitja stigalausir á botni deildarinnar. Það var því fyrirfram búist við frekar þægilegum sigri hjá HK-ingum.

Leikurinn var þó nokkuð jafn og voru Þróttur V. að spila vel gegn sterku HK liði, liðin fylgdust að í fyrstu hrinu, en HK náði þó að slíta sig aðeins frá þegar leið á hrinuna og vann hrinuna 25-20. Næstu tvær hrinur voru keimlíkar þeirri fyrstu þar sem HK var með yfirhöndina í leiknum en náði þó aldrei að hrista Þrótt V. af sér en Þróttarar voru mjög baráttuglaðir í leiknum. Það var þó ekki nóg fyrir þá þar sem HK sigraði að lokum næstu tvær hrinur 25-21 og 25-19 og unnu leikinn þar með 3-0.

Þessi leikur breytir litlu um stöðu liðanna í deildinni en HK styrkir stöðu sína í öðru sætinu og fylgir toppliði Hamars, Þróttur V. eru enn í neðsta sæti deildarinnar og eiga enn eftir að vinna leik á þessu tímabili.