[sam_zone id=1]

HK mætir KA í úrslitunum

Afturelding og HK mættust í seinni undanúrslitaleik dagsins í Kjörísbikar kvenna.

Þessi tvö lið eru efst í Mizunodeild kvenna og því um sannkallaðan stórleik að ræða. Fyrr í dag vann KA öruggan sigur á Völsungi og KA beið því í úrslitunum. Afturelding og HK höfðu nú þegar mæst tvisvar á tímabilinu og unnið einn leik hvort.

Fyrsta hrina leiksins var hnífjöfn og náði hvorugt lið að slíta sig frá hinu. Þau héldu áfram að skiptast á stigum þar til staðan var orðin 20-20 en þá tóku HK-ingar völdin. Þær skoruðu næstu 5 stig og unnu hrinuna 20-25. HK leiddi því 0-1 og var spennan ekki minni í næstu hrinu.

HK byrjaði betur í annarri hrinunni en Afturelding var þó ekki langt undan. Um miðja hrinu fór allt á hvolf hjá HK og Afturelding fór á flug. Mosfellingar unnu hrinuna sannfærandi, 25-18, og jöfnuðu leikinn 1-1.

HK byrjaði af svakalegum krafti í þriðju hrinunni og komst 0-6 yfir. Afturelding náði þó að jafna leikinn eftir öflugar uppgjafir frá Thelmu Dögg. HK hélt þó áfram að spila vel og náði forystunni fljótt aftur. HK lék mun betur undir lokin og vann 20-25.

Aftur byrjaði HK vel í fjórðu hrinunni og tók Afturelding leikhlé í stöðunni 3-8. Mosfellingar náðu þó ekki að saxa á forystuna og HK hafði þægilega forystu. Seinni hluti hrinunnar var eign HK-inga sem unnu hrinuna 16-25 og leikinn þar með 1-3. HK fer því í úrslit og mætir þar liði KA.

Stigahæst í liði Aftureldingar var Thelma Dögg Grétarsdóttir með 18 stig en næst kom María Rún Karlsdóttir með 11 stig. Hjá HK var Hjördís Eiríksdóttir stigahæst með 15 stig og Michelle Traini bætti við 11 stigum.

Úrslitaleikurinn fer fram klukkan 13:00 á sunnudag og verður í beinni á RÚV. Á morgun fara fram undanúrslitaleikir karla og byrjar fjörið á leik Hamars og Vestra klukkan 13:00. Afturelding og HK mætast svo klukkan 16:00 í seinni leik dagsins.