[sam_zone id=1]

HK heldur draumnum um Íslandsmeistaratitil á lífi

HK og KA mættust í kvöld í fjórða úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrir leikinn var staðan 2-1 fyrir KA í einvíginu, en sigra þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn. HK fór með 3-1 sigur í hörkuspennandi leik og því verður hreinn úrslitaleikur um Íslandsmeistaratitilinn miðvikudaginn 24. apríl í KA-heimilinu.

Lið HK byrjaði fyrstu hrinu mjög vel á meðan KA liðið virtist stressað í upphafi leiks. Lið KA átti í erfiðleikum með móttöku og uppgjafir en fjórir leikmenn KA gerðu mistök í uppgjöf í röð. HK náði góðu forskoti með fjölbreyttum sóknarleik og tók Miguel Mateo, þjálfari KA, leikhlé í stöðunni 8-4 og svo aftur í stöðunni 16-8.  KA stúlkur náðu að vinna sig aftur inn í leikinn eftir leikhlé þegar Luz Medina, uppspilari KA, fór hamförum í uppgjafarreitnum. Staðan var þá orðin 16-13 en Matthildur Einarsdóttir, uppspilari HK, fór stuttu seinna í uppgjöf og svaraði í sömu mynt, staðan því orðin 22-15 fyrir HK. Sóknarleikur KA fór í gang undir lok hrinunnar og náðu þær að minnka muninn í 22-20. Það dugði þó ekki til því HK kláraði hrinuna 25-21, þegar Laufey Björk Sigmundsdóttir skoraði flott sóknarstig með því að slá í hávörnina og útaf.

HK byrjaði aðra hrinu af miklum krafti og komust í 5-0 þar sem Hjördís og Matthildur skiptust á því að skora stig. KA stúlkur svöruðu fyrir sig og skoruðu þrjú sterk sóknarstig í röð og minnkuðu muninn í 5-3. Arna Sólrún, miðjuspilari hjá HK, skoraði þá þrjú stig í röð fyrir HK, fyrst eitt stig úr sókn og síðan tvo ása. Staðan í hrinunni var því orðin 8-3 fyrir HK. HK stúlkur héldu áfram að gefa í og tók Miguel Mateo leikhlé í stöðunni 10-4 fyrir HK. Birna Baldursdóttir, miðjuspilari fyrir KA, átti þá frábæran kafla bæði í sókn og hávörn á sama tíma og Helena Kristín tók fjóra ása fyrir KA. KA náði því að snúa hrinunni við og tók Emil Gunnarsson leikhlé í stöðunni 16-19 fyrir KA og messaði yfir sínu liði. Leikhléið skilaði sínu og fór sóknarleikur HK í gang og þá sérstaklega Hjördís Eiríksdóttir sem skoraði fjögur stig á stuttum tíma fyrir HK. Það var svo Elísabet Einarsdóttir sem skoraði úrslitastigið í hrinunni úr sókn, staðan 25-23.

Staðan var orðin 2-0 fyrir HK í hrinum og því lið KA komið með bakið upp við vegg. KA stúlkur ætluðu sko ekki tómhentar heim og byrjuðu þær hrinuna af krafti. Emil Gunnarsson, þjálfari HK var búinn með bæði leikhléin sín í stöðunni 5-13. KA sýndu frábæran sóknar- og hávarnarleik og á meðan virtist ekkert ganga upp hjá HK. HK stúlkur náðu aðeins að að koma sér aftur inn í leikinn en þá setti KA sóknarleikinn í næsta gír og þá sérstaklega reynsluboltar KA, Hulda Elma og Birna. HK náði aðeins að klóra í bakkann undir lok hrinunnar en það dugði ekki til og valtaði lið KA yfir lið HK í þriðju hrinu. Lokastaða í hrinunni 16-25 .

HK virtust ekki láta tapið í þriðju hrinu á sig fá og voru þær mjög kröftugar í byrjun fjórðu hrinu. Miguel Mateo, þjálfari KA, var búinn með bæði leikhléin sín í stöðunni 14-6 fyrir HK. Emil Gunnarsson, þjálfari HK, tók leikhlé í stöðunni 14-11 eftir frábæran kafla hjá KA þar sem Luz Medina og Paula Del Olmo Gomez fóru á kostum. Liðin skiptust á að fá stig og náði KA hægt og rólega að minnka muninn. Lið HK tók leikhlé í stöðunni 23-19 en KA hélt áfram siglingu og jöfnuðu leikinn í stöðunni 24-24 eftir kröftugan sóknarleik. Það var síðan fyrirliði HK, Elísabet Einarsdóttir, sem skoraði síðustu tvö stigin í leiknum og hélt draumnum um Íslandsmeistaratitilinn á lífi. Lokastaðan í hrinunni 26-24 og 3-1 sigur fyrir HK raunin.

Stigahæst í leiknum var Elísabet Einarsdóttir  með 22 stig, þar af 19 úr sókn, 1 úr hávörn og 2 úr uppgjöf. Hjördís Eiríksdóttir átti einnig frábæran leik fyrir HK stúlkur en hún skoraði 16 stig, þar af 12 úr sókn, 2 úr hávörn og 2 úr uppgjöf.

Stigahæst í liði KA var Helena Kristín Gunnarsdóttir með 17 stig, þar af 11 úr sókn, 2 úr hávörn og 4 úr uppgjöf. Næst stigahæst í liði KA var Paula Del Olmo Gomez með 14 stig, þar af 8 úr sókn, 5 úr hávörn og 1 úr uppgjöf.