[sam_zone id=1]

HK hefndi fyrir tap gærdagsins

Þróttur Nes lék öðru sinni gegn HK í Mizunodeild karla í dag.

Leik liðanna í gær lauk með 3-1 sigri Þróttara en HK er enn ofar í töflunni þrátt fyrir tapið. HK var fyrir leikinn með 15 stig eftir 10 leiki en Þróttur með 10 stig eftir 9 leiki. Byrjunarlið beggja liða voru þau sömu og í gær þar sem mest fer fyrir kantmönnum liðanna, Miguel hjá Þrótti og Theódór Óskar hjá HK.

Liðin byrjuðu bæði rólega í fyrstu hrinu og var staðan jöfn. Þróttarar náðu svo fínum kafla og komust 12-9 yfir með góðum sóknarleik. Þróttur hafði yfirhöndina í hrinunni og voru yfirleitt með 3-5 stiga forystu. HK lagaði stöðuna nokkuð um miðja hrinuna og tók Ana Maria, þjálfari Þróttar, leikhlé í stöðunni 20-18.

Emil Gunnarsson og Valens Torfi Ingimundarson höfðu komið inn á völlinn hjá HK og hjálpað liðinu í þessari endurkomu. Börkur Marinósson og Atli Fannar Pétursson höfðu einnig komið inn hjá Þrótti sem skiptimenn. HK hélt áfram að þjarma að heimamönnum og komust 22-23 yfir. Lokastig hrinunnar voru æsispennandi en svo fór að HK sigraði 30-32.

Önnur hrinan var einnig jöfn til að byrja með en HK náði 5-8 forystu með þremur stigum í röð. Ana Maria tók leikhlé þegar HK hafði náð 7-12 forystu og reyndi að kveikja smá líf í sínu liði. Það gekk eftir en þó héldu Þróttarar áfram að elta. HK stakk svo af í lokin og sigraði hrinuna sannfærandi, 17-25.

HK byrjaði þriðju hrinuna einnig vel og leiddi 4-9 þegar Ana Maria tók sitt fyrsta leikhlé. HK hafði yfirhöndina á flestum sviðum og þurftu Þróttarar að vera snöggir í gang til að eiga möguleika í leiknum. HK gaf hins vegar í og tók Ana Maria sitt seinna leikhlé í stöðunni 8-16. Þróttur setti varamenn inn í lokin en HK sigraði hrinuna 15-25 og leikinn þar með 0-3.

Miguel Angel Ramos Melero skoraði 13 stig fyrir Þrótt Nes en Theódór Óskar Þorvaldsson skoraði 14 stig fyrir HK. HK er nú með 18 stig eftir 11 leiki og er í fínni stöðu í 2. sæti deildarinnar. Þróttur er með 10 stig eftir 10 leiki og eru enn í 4. sætinu. HK mætir Aftureldingu á miðvikudag en Þróttarar heimsækja HK-inga í Kópavoginn 9. og 10. febrúar næstkomandi.