[sam_zone id=1]

HK er Kjörísbikarmeistari kvenna

Úrslitaleik Kjörísbikars kvenn lauk rétt í þessu með sigri HK gegn KA.

KA vann undanúrslitaleik sinn gegn Völsungi á föstudag og þurfti ekki að hafa mikið fyrir sigrinum. HK vann hins vegar í jöfnum leik gegn Aftureldingu. HK og KA höfðu mæst tvisvar á tímabilinu og vann HK þá leiki báða eftir mikla spennu.

Norðankonur byrjuðu afar vel í fyrstu hrinu og náðu 4-0 forystu. Mikið var um uppgjafamistök í upphafi hrinunnar enda mikið undir og leikmenn að finna sig í Digranesinu. HK saxaði fljótt á og var hrinan afar spennandi og skemmtileg.

Sterkar uppgjafir og öflug hávörn skiluðu HK forystunni eftir miðbik hrinunnar og vann HK nokkuð sannfærandi, 19-25. Aftur byrjaði KA vel í annarri hrinu en líkt og í þeirri fyrstu minnkaði HK muninn strax. Leikurinn snerist svo algjörlega við um miðja hrinuna og HK tók öll völd.

Það virtist allt ganga upp hjá HK og sömuleiðis gekk allt á afturfótunum hjá KA. HK-ingar juku forystuna smám saman og unnu hrinuna auðveldlega, 16-25. HK leiddi þar með 0-2 og vantaði eina hrinu til viðbótar til að tryggja bikarmeistaratitilinn.

Það kom ekki mikið á óvart að KA byrjaði af krafti í þriðju hrinu en það tók HK ekki langan tíma að jafna leikinn. Það voru HK-ingar sem leiddu um miðja hrinu en bæði lið léku af krafti og var KA ekki langt undan. KA lenti þó í vandræðum og tók leikhlé 13-19 undir.

KA átti erfitt uppdráttar undir lokin og HK vann örugglega, 14-25. HK tryggði sér því bikarmeistaratitilinn með 0-3 sigri.

Michelle Traini og Sara Ósk Stefánsdótir voru stigahæstar í liði HK með 10 stig hvor en Sara var jafnframt valin besti leikmaður úrslitaleiksins. Paula Del Olmo Gomez skoraði 9 stig fyrir KA og Sigdís Lind Sigurðardóttir skoraði 8 stig.

Úrslitaleikur karla hefst nú rétt bráðum en þar mætast Hamar og Afturelding.