[sam_zone id=1]

HK enn með fullt hús stiga

Þrír leikir fóru fram í Mizunodeild kvenna í dag en keppni hófst að nýju í deildinni í gær, laugardag.

HK og Þróttur Nes mættust í gær í fyrsta leik deildarinnar eftir langt hlé. Þar fór HK með þægilegan 3-0 sigur og þessi sömu lið mættust öðru sinni í dag. Heimakonur í HK byrjuðu leikinn mjög vel og virtust ætla að fara með auðveldan sigur af hólmi en Þróttarar gerðu mun betur í annarri hrinu leiksins sem þær unnu 26-28. Eftir það náði HK þó góðum tökum á leiknum og vann leikinn 3-1.

Á Akureyri tók lið KA á móti Álftanesi og var leikurinn mjög jafn til að byrja með. Eftir mikla spennu og þó nokkrar sveiflur unnu Álftnesingar fyrstu hrinuna naumlega en KA tók öll völd eftir það. Norðankonur unnu næstu þrjár hrinur mjög auðveldlega og náðu í þrjú stig. Mireia Orozco, nýr leikmaður KA, átti frábæran leik og gæti reynst afar mikilvæg fyrir lið KA.

Þriðji og síðasti leikur dagsins í kvennadeildinni var leikur Þróttar Reykjavíkur gegn Aftureldingu. Þar sem að Laugardalshöll er ekki í góðu standi þessa dagana fór leikurinn fram á nýjum heimavelli Þróttara í Digranesi, Kópavogi. Þetta var jafnframt fyrsti leikur Þróttar R á þessu tímabili þar sem liðið hafði ekki spilað einn einasta leik þegar hlé var gert á deildinni í október.

Það var lið Aftureldingar sem kom sterkara til leiks og var ljóst frá upphafi að gestirnir úr Mosfellsbæ höfðu yfirhöndina í dag. Þróttur gerði þeim þó erfitt fyrir undir lok fyrstu tveggja hrinu en sú þriðja var eign Aftureldingar frá upphafi. Mosfellingar náðu þar með í 0-3 sigur og hafa unnið tvo fyrstu leiki sína í deildinni.

HK er nú á toppnum með 9 stig eftir þrjá leiki en KA kemur þar á eftir með 6 stig eftir fjóra leiki og Afturelding er í þriðja sætinu með 5 stig eftir tvo leiki. Næstu vikur verður leikið ansi þétt í Mizunodeildunum og það gæti því margt breyst á næstu vikum. Næstu helgi fara tveir leikir fram en Afturelding tekur á móti Álftanesi á föstudag og Þróttur Reykjavík fær KA í heimsókn á sunnudag.

Úrslit dagsins

HK 3-1 Þróttur Nes (25-16, 26-28, 25-13, 25-15). Stigahæstar í liði HK voru Hjördís Eiríksdóttir með 15 stig og Michelle Traini með 13 stig. Maria Jimenez Gallego var stigahæst í liði Þróttar Nes með 9 stig en næst komu Maria Eugenia Sageras og Ester Rún Jónsdóttir með 7 stig hvor.

KA 3-1 Álftanes (23-25, 25-13, 25-11, 25-14). Samkvæmt tölfræði KA TV skoraði Mireia Orozco 21 stig fyrir KA og Paula Del Olmo Gomez bætti við 15 stigum. Ásthildur Gunnarsdóttir og Ísabella Erna Sævarsdóttir skoruðu 8 stig hvor fyrir Álftanes.

Þróttur Reykjavík 0-3 Afturelding (19-25, 21-25, 12-25). Tölfræði hefur ekki borist úr þessum leik.