[sam_zone id=1]

HK aftur á sigurbraut

HK og Vestri mættust í Mizunodeild karla í dag en bæði þessi lið hafa byrjað tímabilið vel. HK sitja í öðru sætinu og höfðu fyrir leikinn í dag einungis tapað einum leik. Vestri höfðu einnig einungis tapað einum leik en einungis leikið þrjá leiki til þessa.
Það var því von á hörkuleik í Fagralundi í dag.

HK byrjaði leikinn betur og var eins og það væri einhver smá þreyta í leikmönnum Vestra eftir leikinn á föstudaginn. Vestramenn komust aldrei inn í leikinn í fyrstu hrinu sem HK sigraði örugglega 25-16.
Vestramenn komu ákveðnir til leiks í annari hrinu og var allt annað að sjá til liðsins, eitthvað virtist þó vera að hrjá HK menn í þessari hrinu og nýttu Vestri sér það og völtuðu yfir HK í hrinunni og unnu hana 25-15.

Aftur snérist leikurinn við í næstu hrinu þar sem HK tók öll völd á vellinum og unnu þeir þriðju hrinuna með sama mun og þá fyrstu 25-16. HK litu ekki til baka eftir þetta og náðu í gott forskot sem þeir héldu út hrinuna. Þeir unnu fjóðru hrinuna 25-20 og þar með leikinn 3-1.

HK eru eftir þennan leik áfram í öðru sæti deildarinnar með 18 stig þremur stigum á eftir toppliði Hamars en Vestramenn eru í sjötta sæti deildarinnar með 6 stig en hafa leikið 2-3 leikjum færra en flest lið.