[sam_zone id=1]

Heimasigrar í Úrvalsdeildunum í kvöld

Tveir leikir fóru fram í úrvalsdeildunum í blaki í kvöld. Einn leikur fór fram í Mosefellsbæ en svo var einnig leikið á Akureyri.

Afturelding tók á móti Þrótti/Fjarðabyggð í kvöld. Fyrirfram var búist við nokkuð þægilegum sigri Aftureldingar en þær hafa þó sýnt að þær eru ekki ósigrandi og tókst KA meðal annars að leggja liðið að velli.
Þróttur/Fjarðabyggð byrjaði leikinn af miklum krafti og var enginn ferðaþreyta í liðinu. Afturelding hélt í við Þrótt/Fjarðabyggð og var hrinan æsispennandi. Það var þó Þróttur/Fjarðabyggð sem sigraði hrinuna 25-21 og komnar yfir 1-0 í leiknum.

Áfram var jafnræði með liðunum í næstu hrinum og ljóst að bæði lið ætluðu að gefa allt í þetta. Það sáust frábær tilþrif hjá báðum liðum en Afturelding voru þó sterkari í næstu hrinum og unnu þær 25-22 og 25-20.
Þróttur/Fjarðabyggð þurftu því sigur í næstu hrinu ætluðu þær sér að fá eitthvað út úr leiknum. Afturelding sá hinsvegar til þess að Þróttur/Fjarðabyggð færi ekki lengra að sinni. Þær skelltu algerlega í lás og völtuðu yfir gestina í síðustu hrinu leiksins. Hrinan endaði 25-10 og leikurinn því 3-1 fyrir Aftureldingu sem tekur 3 stig úr þessum leik.

Með sigrinum jafnar Afturelding KA á toppi deildarinnar bæði lið eru með 12 stig en KA á þó leik til góða. Þróttur/Fjarðabyggð sitja í 4. sætinu með 6 stig tveimur stigum á eftir HK.

Í hinum leik kvöldsins fór lið Fylkis norður í land og tók á móti KA á Akureyri. Bæði lið voru í neðri hluta deildarinnar fyrir leikinn og þurftu bæði á sigri að halda til að halda í við efri hluta deildarinnar.
KA byrjaði leikinn af miklum krafti og ljóst að heimamenn ætluðu sér ekki að sýna neina gestrisni í kvöld. Þeir voru ávallt með gott forskot sem þeir létu ekki af hendi og sigruðu fyrstu hrinuna 25-19.

Fylkismenn reyndu hvað þeir gátu í næstu tveimur hrinum og stóðu í KA mönnum á köflum. KA menn voru þó að spila gríðarlega vel í kvöld og þrátt fyrir hetjulega baráttu hjá Fylki þá voru það KA menn sem voru sterkari og unnu einnig næstu tvær hrinur 25-21 og 25-18. KA vann þar með leikinn 3-0 og nær sér í dýrmæt 3 stig.

Með sigrinum styrktu KA menn stöðu sína í fimmta sætinu og eru nú með 10 stig og einungis 2 stigum frá Hamri og Aftureldingu sem sitja í 3 og 4 sæti deildarinnar.
Fylkismenn sitja áfram í næst neðsta sæti deildarinnar með 4 stig.