[sam_zone id=1]

Hammelburg vann í Bliesen

Máni og félagar í TV Bliesen mættu Hammelburg í hörkuleik í þýska blakinu í dag.

Lið TV Bliesen mætti sterku liði Hammelburg í 2. deild Þýskalands í dag en gestirnir frá Hammelburg sátu í 3. sæti deildarinnar fyrir leik dagsins. Bliesen var í harðri baráttu við botn deildarinnar en þó einungis fjórum stigum á eftir liði Mainz. Máni Matthíasson var sem fyrr í byrjunarliði Bliesen og lék allan leikinn.

Fyrsta hrina leiksins bauð upp á mikla skemmtun og æsispennandi skorpur. Mestur var munurinn á liðunum þrjú stig í stöðunni 7-4 fyrir Bliesen. Eftir það var munurinn einungis eitt eða tvö stig út hrinuna. Bliesen voru skrefinu á undan eftir miðbik hrinunnar en það voru gestirnir frá Hammelburg sem unnu 30-32 sigur. Gestirnir sluppu þar með skrekkinn en gerðu betur í annarri hrinu þar sem þeir unnu þægilegan 15-25 sigur.

Þriðja hrinan var ansi lík þeirri fyrstu og var jafnt á öllum tölum framan af. Undir lokin var lið Hammelburg þó sterkara og vann 22-25 sigur. Gestirnir unnu leikinn því 0-3 og sat Bliesen eftir stigalaust þrátt fyrir jafnan leik. Bliesen er því enn í næstneðsta sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Mainz en 7 stigum á undan Friedrichshafen 2. Næsti leikur liðsins verður þann 10. apríl þegar þeir mæta Kriftel á útivelli. Kriftel er í 11. sæti deildarinnar en Bliesen í 14. sætinu.