[sam_zone id=1]

Hamar vann stórleikinn karlamegin

Alls fóru þrír leikir fram í úrvalsdeildunum í dag en karlamegin mættust HK og Hamar sem voru bæði ósigruð til þessa.

Kvennamegin fóru fram tveir leikir þar sem annars vegar mætti HK liði Völsungs í Digranesi en hins vegar mættust Álftanes og KA á heimavelli Álftnesinga.

Úrvalsdeild kvenna

Fyrri leikur dagsins var seinni viðureign HK og Völsungs en liðin mættust einnig í gær þar sem HK hafði betur 3-0. Lítil breyting varð á leiknum í dag sem HK vann einnig 3-0. Lið Völsungs náði þó að stríða HK í fyrstu og þriðju hrinu sem töpuðust 25-22 og 25-23 en HK vann hinsvegar nokkuð örugglega í annarri hrinu 25-11. Stigahæst í leiknum var Heba Sól Stefánsdóttir leikmaður HK með 12 stig. Stigahæst í liði Völsungs var Tamara Kaposi með 9 stig.

Seinni leikur dagsins var viðureign Álftaness og KA en þeim leik lauk með 1-3 sigri KA. Fyrstu tvær hrinurnar voru nokkuð auðveldar fyrir gestina frá Akureyri en þær unnu norðankonur 18-25 og 15-25. Þriðja hrinan var hins vegar æsispennandi og vann Álftanes 25-23 sigur til að halda lífi í leiknum. KA vann fjórðu hrinu þó 21-25 og tryggði sér þar með öll þrjú stigin.

Úrvalsdeild karla

Karlamegin mættust lið Hamars og HK sem voru bæði með fullt hús stiga fyrir leik dagsins. HK vann fyrstu hrinu leiksins 25-23 eftir mikla spennu en Hamar var sterkari aðilinn í annarri hrinu og hana unnu þeir 20-25. Þriðja hrina var hnífjöfn en Hamar nældi í 23-25 sigur og fór svo létt með fjórðu hrinuna sem lauk 14-25. Hamar vann því 3-1 sigur og er enn með fullt hús stiga í úrvalsdeild karla.

Hristiyan Dimitrov var stigahæstur í liði HK með 21 stig en hjá Hamri var Wiktor Mielczarek atkvæðamestur, einnig með 21 stig.