[sam_zone id=1]

Hamar vann í Mosfellsbæ

Einn leikur fór fram í úrvalsdeild karla í kvöld en þar mættust Afturelding og Hamar.

Leikið var að Varmá í Mosfellsbæ en í heimsókn voru Hamarsmenn frá Hveragerði. Hamar var fyrir leikinn með fullt hús stiga en Afturelding var í 3. sæti deildarinnar. Afturelding er í harðri baráttu við Þrótt Fjarðabyggð um 3. sætið en gat með sigri í kvöld nálgast HK í öðru sætinu.

Afturelding byrjaði leikinn í kvöld afar vel og gerðu Mosfellingar mun betur en gestirnir í upphafi fyrstu hrinu. Þeir höfðu mest fjögurra stiga forystu en undir lokin saxaði lið Hamars á forystuna. Hamar skoraði þrjú síðustu stig hrinunnar og vann 23-25 sigur, þrátt fyrir að Afturelding hafi leitt allt frá upphafi fyrstu hrinu.

Dæmið snerist við í annarri hrinu þar sem að Hamar byggði fljótt upp þægilegt forskot. Munurinn var níu stig um miðja hrinuna en Afturelding átti frábæran kafla eftir það. Þeir minnkuðu muninn í aðeins þrjú stig en það dugði ekki til, Hamar vann hrinuna 20-25 og leiddi 0-2.

Þriðja hrinan var spennandi framan af en fljótlega tóku Hamarsmenn forystuna. Gestirnir voru svo mun sterkari undir lokin og unnu sannfærandi 17-25 sigur. Hamar vann leikinn því 0-3 og hirti öll þrjú stigin. Lið Hamars er því enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar, 30 stig eftir 10 leiki. Afturelding er með 18 stig eftir 10 leiki og getur Þróttur Fjarðabyggð farið upp fyrir þá vinni Þróttarar þá leiki sem þeir eiga inni.

Bæði Afturelding og Hamar eru nú komin í jólafrí frá keppni í úrvalsdeildinni en aðeins tveir leikir til viðbótar fara fram karlamegin fyrir jól. Annars vegar er viðureign KA og Þróttar Fjarðabyggð laugardaginn 11. desember og hins vegar leikur Fylkis og HK sunnudaginn 12. desember.