[sam_zone id=1]

Hamar vann í Kjörísbikarnum

Hamar tók á móti Þrótti Fjarðabyggð í kvöld þegar keppni hófst í Kjörísbikar karla.

Leikurinn fór fram í Hveragerði og börðust liðin um sæti í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins. Hamar hefur farið hamförum í Mizunodeildinni hingað til og var ekki við öðru að búast en sigri þeirra í kvöld. Þróttur átti erfitt uppdráttar í síðasta leik sínum þar sem liðið tapaði gegn HK og vildu því eflaust sýna hvað þeir gætu gert.

Það leið ekki á löngu þar til að Hamar hafði náð afgerandi forystu og var forystan komin í tveggja stafa tölu í seinni hluta hrinunnar. Hamar átti ekki í neinum vandræðum með gestina og vann hrinuna 25-12. Þróttur náði að halda í við heimamenn framan af annarri hrinunni en smám saman seig lið Hamars fram úr og vann sannfærandi, 25-17.

Hamar hélt uppteknum hætti í þriðju hrinu og náði þægilegri forystu snemma sem þeir héldu svo stærstan hluta hrinunnar. Gestirnir áttu hins vegar flottan kafla undir lok hrinunnar og tók Hamar leikhlé í stöðunni 24-22 eftir að Þróttur hafði skorað 4 stig í röð. Hamar skoraði þó næsta stig svo ekki varð spennan meiri. Hamar vann hrinuna þar með 25-22 og leikinn 3-0. Þeir eru því komnir í 8-liða úrslit Kjörísbikarsins þar sem að þeir mæta Álftanesi.

Leikir 8-liða úrslitanna fara fram í byrjun marsmánaðar og lokahelgi bikarkeppninnar fer svo fram dagana 11.-14. mars.