[sam_zone id=1]

Hamar valtaði yfir Fylki

Einn leikur fór fram í Mizunodeild karla í kvöld en þar sóttu Hamarsmenn lið Fylkis heim.

Fylkir lék á Akureyri síðasta föstudag og átti liðið stórfínan leik fyrir norðan. Þeir fóru með leikinn í oddahrinu og töpuðu þar naumlega. Liðið náði þó í sitt fyrsta stig í Mizunodeildinni þetta tímabilið og freistaði Fylkir þess að sækja annað stig gegn toppliði Hamars. Hamar hefur enn ekki tapað stigi í deildinni svo ljóst var að verkefnið yrði ansi erfitt fyrir heimamenn í Árbænum.

Það kom aldeilis á daginn enda byrjaði Hamar af miklum krafti og átti ekki í neinum vandræðum með heimamenn. Hamar vann fyrstu hrinuna 10-25 og hélt uppteknum hætti í annarri hrinu þar sem þeir unnu 12-25.

Fylkir átti engin svör við öflugum leik Hvergerðinga og átti það bara eftir að versna í þriðju hrinu þar sem Hamar vann 7-25. Fylkismenn vilja eflaust gleyma þessum leik sem fyrst enda mikilvægir leikir á næstu dögum. Hamar er hins vegar í góðri stöðu á toppnum.

Stigahæstir í liði Fylkis voru Bjarki Benediktsson og Ólafur Arason en þeir skoruðu 4 stig hvor. Jakub Madej og Radoslaw Rybak skoruðu 12 stig hvor fyrir Hamar og Kristján Valdimarsson bætti við 11 stigum.

Næsti leikur Fylkis verður ansi áhugaverður en þeir mæta Þrótti Vogum þann 28. febrúar. Fylkir og Þróttur Vogum hafa verið við botn deildarinnar allt tímabilið svo að þetta verður eflaust spennandi leikur. Lið Hamars er komið í frí frá Mizunodeildinni og spilar ekki leik þar fyrr en 21. mars. Þeir eiga hins vegar bikarleik gegn Álftanesi þann 5. mars og í kjölfarið fara undanúrslit og úrslit Kjörísbikarsins fram dagana 11.-14. mars.