[sam_zone id=1]

Hamar og Vestri með sigra karlamegin

Tveir leikir fóru fram í úrvalsdeild karla í dag en í Hveragerði mætti topplið Hamars liði KA.

Dagurinn hófst á leik Hamars og KA sem fór fram í Hveragerði en þar voru það gestirnir frá Akureyri sem byrjuðu betur. Hamar gerði heldur mikið af mistökum í fyrstu hrinunni og það nýtti KA sér sannarlega. Lokakaflinn var æsispennandi en að lokum vann KA 24-26 sigur og leiddi 0-1.

Fjörið entist ekki lengi hjá KA en Hamar vaknaði heldur betur til lífsins í annarri hrinu. Þar stungu þeir snemma af og unnu öruggan 25-12 sigur. Svipaða sögu var að segja af þriðju hrinunni sem Hamar vann 25-13 sigur og leiddi nú 2-1. KA gerði nokkrar breytingar á liði sínu fyrir fjórðu hrinuna en áfram var lið Hamars með yfirhöndina. Hamar vann 25-20 og leikinn þar með 3-1.

Hamar er því enn með fullt hús stiga á toppi deildarinnar, nú með 18 stig eftir 6 leiki. KA er með 13 stig en hefur spilað flesti leiki allra liða deildarinnar eða 9 talsins. Liðin mætast aftur á morgun en sá leikur hefst klukkan 13:00.

Í seinni leik dagsins karlamegin tóku Þróttarar úr Vogum á móti Vestra en heimamenn biðu enn eftir fyrsta sigri sínum í úrvalsdeild. Gestirnir frá Ísafirði voru mun sterkari aðilinn í leiknum og þeir unnu fyrstu hrinuna afar auðveldlega, 12-25. Önnur hrina var einnig afar ójöfn en þar vann Vestri 15-25. Þriðja hrinan var nokkuð jafnari en Vestri vann þó 22-25 og vann leikinn því örugglega, 0-3.

Vestri er nú með níu stig eftir átta leiki en Þróttur Vogum er enn á botni deildarinnar án stiga. Þessi sömu lið mætast öðru sinni á morgun og hefst leikur liðanna klukkan 13:00.