[sam_zone id=1]

Hamar og HK unnu leiki kvöldsins

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeild karla í kvöld. Hamar fengu Álftanes í heimsókn í Hveragerði og HK keyrðu í Mosfellsbæinn þar sem þeir léku gegn Aftureldingu.

Það vantaði ekki spennuna í Hveragerði þrátt fyrir að Hamar hafi verið töluvert sigurstranglegri miðað við stöðuna í deildinni. Hamar leiddu megnið af fyrstu hrinunni en Álftanes voru þó aldrei langt undan og komust yfir í stöðunni 23-24. Heimamenn voru þó sterkari undir lokin og unnu hrinuna eftir upphækkun, 29-27. Álftanes leiddu aðra hrinuna þar til um hana miðja en þá setti Hamar í fluggírinn og tóku forystuna. Hamar unnu aðra hrinuna 25-22. Þriðja hrinan var sú minnst spennandi í leiknum en hana vann Hamar sannfærandi, 25-17, og leikinn þar með 3-0.

Hamar er enn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir 8 leiki og hefur einungis tapað einni hrinu það sem af er tímabili. Álftanes eru í 7. sæti deildarinnar með 3 stig eftir 6 leiki.

Afturelding fékk HK í heimsókn í hinum leik kvöldsins. Heimamenn mættu ákveðnir til leiks og völtuðu yfir gestina í fyrstu hrinu, sem þeir unnu 25-17.  HK vöknuðu til lífsins eftir það og unnu næstu tvær hrinur 22-25 og 19-25. Aftureldingarmenn voru þó ekki búnir að gefast upp og unnu þeir fjórðu hrinuna 25-21 og knúðu þannig fram oddahrinu. Oddahrinan varð aldrei spennandi þar sem HK voru með gott forskot frá upphafi. HK unnu hrinuna 10-15 og leikinn þar með 2-3.

HK sitja í öðru sæti deildarinnar, ekki langt undan toppliði Hamars og Afturelding er í 5. sæti deildarinnar.