[sam_zone id=1]

Hamar og HK enn með fullt hús stiga

Það var nóg um að vera í Mizunodeild karla í dag en alls fóru fram þrír leikir.

Mizunodeildirnar fóru loks af stað aftur um síðustu helgi og í dag hélt fjörið áfram með þremur leikjum í Mizunodeild karla. Kvennamegin áttu lið Þróttar Reykjavíkur og KA að mætast í Digranesi en veðrið setti strik í reikninginn og var þeim leik frestað. Það sama mátti segja um leik Vestra og Álftaness í Mizunodeild karla.

Fyrsti leikur dagsins var viðureign Þróttar Vogum og HK en liðin eru í talsvert ólíkri stöðu í deildinni. Þróttur V hafði tapað öllum þremur leikjum sínum til þessa en HK unnið alla sína þrjá. Heimamenn í Þrótti byrjuðu leikinn af miklum krafti og leiddu 8-3 í fyrstu hrinu. HK náði þó smám saman að minnka muninn og vann hrinuna að lokum 21-25.

Önnur hrina leiksins bauð upp á enn meiri spennu en aftur leiddi Þróttur framan af. HK vann hrinuna 26-28 og leiddi 0-2. Í þriðju hrinunni náði lið HK sér betur á strik og vann 14-25 og þar með unnu gestirnir 0-3 sigur. HK er enn á toppi deildarinnar með fullt hús stiga en Þróttur Vogum á botninum án stiga.

Í Hveragerði tók lið Hamars á móti Aftureldingu en Hamar hafði unnið fyrstu þrjá leiki sína 3-0 og virðist liðið geysiöflugt. Afturelding átti í miklum vandræðum með leikmannahóp sinn fyrir viku en nýr leikmaður kom til liðsins á síðustu dögum, hinn argentínski Nicolas Toselli. Ekki var sú viðbót nóg gegn liði Hamars sem byrjaði mun betur og vann fyrstu hrinu 25-13. Aðeins betur gekk hjá gestunum í annarri hrinu en Hamar vann hana þó auðveldlega, 25-17.

Í þriðju hrinu komust Mosfellingar loks í gang og þeir náðu þægilegri forystu um miðja hrinu. Hamar átti góða endurkomu undir lokin en Afturelding vann þó 23-25 og hélt lífi í leiknum. Hvergerðingar töpuðu þar með sinni fyrstu hrinu á tímabilinu en þeir unnu fjórðu hrinuna sannfærandi, 25-20, og unnu leikinn þar með 3-1. Hamar er því enn með fullt hús stiga eftir fjóra leiki, líkt og lið HK.

Síðasti leikur dagsins var viðureign Fylkis og Þróttar Nes en liðin mættust fyrr í haust þar sem að Þróttur Nes vann 3-1 eftir mikla spennu. Leikur liðanna í dag var þó ekki mjög spennandi til að byrja með en Þróttur Nes vann fyrstu hrinu auðveldlega, 14-25. Önnur hrinan var öllu jafnari en aftur voru það gestirnir að austan sem unnu, nú 21-25. Fylkir sá ekki til sólar í þriðju hrinu sem Þróttur Nes vann auðveldlega, 12-25, og gestirnir unnu leikinn því 0-3.

Þróttur Nes hefur nú unnið tvo leiki, báða gegn Fylki, og er liðið komið upp í 3. sæti deildarinnar með sex stig en hafa þó spilað fimm leiki, flesta allra liða. Fylkir er enn án stiga eftir þrjá leiki.

Alls verða fjórir leikir á dagskrá á miðvikudagskvöld en þá mætast HK og Fylkir í Fagralundi, Hamar sækir Þrótt Vogum heim, Afturelding fær Álftanes í heimsókn og KA fer austur í Neskaupstað og mætir þar Þrótti. Um helgina fara svo fjölmargir leikir fram í Mizunodeildum kvenna og karla.

Úrslit dagsins

Þróttur Vogum 0-3 HK (21-25, 26-28, 14-25).

Hamar 3-1 Afturelding (25-13, 25-17, 23-25, 25-20).

Fylkir 0-3 Þróttur Nes (14-25, 21-25, 12-25). Sergej Diatlovic, Arnór Snær Guðmundsson og Bjarki Benediktsson skoruðu 5 stig hver fyrir Fylki en hjá Þrótti Nes var Þórarinn Örn Jónsson stigahæstur með 14 stig og Miguel Angel Ramos Melero bætti við 13 stigum.