[sam_zone id=1]

Hamar með yfirhöndina gegn Vestra í undanúrslitum karla.

Undanúrslit um Íslandsmeistaratitil karla hófust í kvöld þegar Vestri tók á móti Deildar og Bikarmeisturum Hamars frá Hveragerði.

Hamarsmenn hafa verið með nokkra yfirburði í vetur og verða þeir að teljast líklegastir til að hampa Íslandsmeistaratitilinum og ná þar með að fullkomna þrennuna á sínu fyrsta ári í efstu deild karla.

Hamar vann fyrstu hrinu nokkuð örugglega 25-16 en í stöðunni 20-9 þá virðist Wiktor Mielczarek leikmaður Hamars meiðast á baki. Hann reyndi þó að halda leik áfram en í stöðunni 24-16 kemur Hilmar Sigurjónsson inn í hans stað. Wiktor gat ekki byrjað aðra hrinu og kom þá Radoslaw Rybak á kantinn og Hilmar tók stöðu díó.

Einhvað virtist þetta slá Hamarsmenn út af laginu en heimamenn komu af miklum krafti inn í aðra hrinu. Í stöðunni 7-4 fyrir Vestra kemur Wiktor aftur inná og þá fyrir Radoslaw Rybak. Heimamönnum gekk ágætlega að halda stórliði Hamars í skefjum í annarri hrinu en tóku þó leikhlé í stöðunni 11-9 en þá virtust Hamarsmenn vera að koma sér í gírinn á nýjan leik. Vestra tókst hinsvegar að halda gestunum í skefjum og unnu þeir aðra hrinu 25-22 og jöfnuðu leikinn 1-1.

Wiktor var svo kominn aftur á kantinn í þriðju hrinu og Radoslaw í díó stöðuna og þrátt fyrir að heimamenn hafi komið fullir sjálfstraust í þriðju hrinu þá dugði það ekki til. Eftir hörkuspennandi hrinu þá voru það reynsluboltar í liði Hamars sem höfðu betur 25-22. Hamar kláraði svo leikinn með sigri í fjórðu hrinu 25-15 og eru því komnir yfir í einvíginu 1-0.

Stigaskor úr leiknum liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Seinni leikur liðanna er á miðvikudaginn í Hveragerði en takist Vestra að sigra þann leik þá þarf að grípa til gullhrinu en ekki verða leiknir 3 leikir.