[sam_zone id=1]

Hamar með sigur í fyrsta leik sínum

Hamar lék í kvöld sinn fyrsta blakleik í úrvalsdeild þegar liðið mætti Þrótti Nes í Mizunodeild karla.

Nýliðar Hamars mættu til leiks með sterkt lið en í byrjunarliði þeirra voru bræðurnir Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir sem hafa leikið erlendis í um áratug. Auk þeirra voru hinir pólsku Jakub Madej og Damian Sapor í liðinu sem og Ragnar Ingi Axelsson, frelsingi og landsliðsmaður. Spilandi þjálfari liðsins, Radoslaw Rybak, var í byrjunarliðinu í dag og Hilmar Sigurjónsson, fyrrum landsliðsmaður, var þar einnig.

Þróttur Nes tefldi fram svipuðu liði og í ofurbikarnum á Akureyri en hinn þaulreyndi Þórarinn Ómarsson var mættur aftur í stöðu frelsingja. Helstu leikmenn liðsins eru kantmennirnir Miguel Angel Ramos Melero og Þórarinn Örn Jónsson en Francisco José Lopez Barrionuevo, nýr spænskur leikmaður liðsins, lék sem uppspilari.

Fyrsta hrina leiksins var jöfn og nokkuð spennandi. Liðin skiptust á að hafa forystuna en undir lok hrinunnar reyndist lið heimamanna í Hamri sterkara og unnu þeir hrinuna 25-22. Hamarsmenn gáfu í þegar komið var í aðra hrinu og unnu hana sannfærandi, 25-21, eftir að hafa leitt með 9 stigum um miðja hrinuna. Þriðja hrinan endaði einnig með þægilegum sigri Hamars, 25-16. Hamar fer því á topp deildarinnar, að minnsta kosti fram að leik Aftureldingar og Þróttar Vogum sem fer fram á morgun.

Engin tölfræði er til staðar úr leiknum.

Í liði Hamars var Jakub Madej öflugur á flestum sviðum leiksins og uppspilarinn Damian Sapor dreifði spili Hvergerðinga vel í sókninni. Hjá Þrótti Nes voru kantsmassararnir Melero og Þórarinn atkvæðamestir eins og við var að búast.