[sam_zone id=1]

Hamar leiðir úrslitaeinvígið

Úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn karlamegin hófst í dag þegar Hamar og KA mættust í Hveragerði.

Hamar hafði betur gegn Vestra í undanúrslitunum og var enn taplaust á tímabilinu en KA vann lið HK í hinu undanúrslitaeinvíginu. Lið KA hefur farið vaxandi á síðari hluta tímabils og mátti ætla að leikir Hamars og KA yrðu afar spennandi. Liðin höfðu aðeins mæst einu sinni á tímabilinu en það var í fyrsta leik deildarinnar. Hamar vann þann leik 0-3 á Akureyri en liðin hafa bæði tekið nokkrum breytingum síðan þá.

Eins og hefur margoft komið fram er lið Hamars afar sterkt en hópurinn þó ekki breiður. Takist KA að skáka Hvergerðingum eru því nánast engar breytingar í boði hjá Hamri. Byrjunarlið Hamars hefur þó ekki raskast það sem af er tímabili og eru þeir sigurstranglegir með sitt ógnarsterka lið.

Leikur dagsins var sá fyrsti í einvíginu og fór fram í Hveragerði en það voru gestirnir frá Akureyri sem byrjuðu mun betur. Þeir náðu fjögurra stiga forystu snemma í hrinunni en sex stig í röð frá Hamri breyttu gangi hrinunnar algjörlega. KA átti í vandræðum með móttökuna en Hamar gerði þó nokkuð af klaufalegum mistökum sem hélt KA inni í hrinunni. Hamar var hins vegar sannfærandi undir lok hrinunnar og vann fyrstu hrinu 25-18.

Augljóslega var mikið undir í leik dagsins og endurspeglaðist það í spennustigi leikmanna beggja liða, helst þó hjá liði KA. Filip Szewczyk fékk aðvörun frá dómara leiksins eftir einungis eitt stig í annarri hrinunni þegar hann mótmælti dómara leiksins nokkuð kröftuglega og um miðja hrinu fékk Benedikt Rúnar Valtýsson, fyrirliði KA, rautt spjald fyrir áframhaldandi kjaftbrúk. Hamar hafði verið á góðu skriði og vann sannfærandi sigur í hrinunni, 25-18, líkt og í fyrstu hrinu.

KA breytti liði sínu í þriðju hrinunni og náði að hrista af sér slenið. Spilandi þjálfari liðsins, André Collins, lék sem miðjumaður í stað Benedikts Rúnars Valtýssonar og Gísli Marteinn Baldvinsson kom inn í byrjunarliðið sem kantsmassari. Norðanmenn náðu 0-3 forystu en Hamarsmenn jöfnuðu þó strax í 3-3. Hamar var skrefi á undan stærstan hluta hrinunnar en KA fylgdi heimamönnum fast á eftir.

Wiktor Mielczarek átti öfluga skorpu í uppgjafarreitnum um miðja hrinu sem bjó til nokkuð bil á milli liðanna tveggja. Heldur dró úr spennunni undir lok þriðju hrinu og Hamar sigldi nokkuð auðveldum 25-17 sigri heim. Hamar vann leikinn því 3-0 og leiðir einvígið 1-0. Burkhard Disch, afreksstjóri BLÍ og þjálfari A-landsliðs karla, valdi í lok leiks bestu leikmenn liðanna og í dag voru það þeir Alexander Arnar Þórisson (KA) og Damian Sapor (Hamar).

Næsti leikur verður miðvikudaginn 26. maí og fer hann fram á Akureyri. Vinna þarf tvo leiki til að tryggja Íslandsmeistaratitilinn og því getur lið Hamars tryggt sér titilinn með sigri á miðvikudag. Fari svo að KA jafni einvígið fer oddaleikur fram föstudaginn 28. maí í Hveragerði.