[sam_zone id=1]

Hamar Íslandsmeistari 2021

Hamar og KA mættust öðru sinni í kvöld í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitil karla.

Fyrri leikur liðanna fór fram síðasta sunnudag þegar liðin mættust í Hveragerði en þar hafði Hamar öruggan 3-0 sigur á heimavelli. Leikurinn í dag fór hins vegar fram á heimavelli KA á Akureyri og þeir freistuðu þess að knýja fram oddaleik. Hamar gat þó tryggt titilinn strax í kvöld með sigri.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en Hamar seig smám saman fram úr. Þeir náðu fimm stiga forystu um miðja hrinuna en náðu þó aldrei að slíta sig frá heimamönnum. KA jafnaði 15-15 og eftir það skiptust liðin á að skora. Munurinn varð aldrei meiri en tvö stig á seinni hluta hrinunnar en að lokum tryggði Hamar 23-25 sigur og náði 0-1 forystu í leiknum.

Í annarri hrinunni voru Hamarsmenn mun sterkari og eftir fína byrjun stungu þeir af um miðja hrinu. Þeir leiddu mest með 8 stigum, 9-17, en þá vaknaði KA til lífsins. Þeir minnkuðu muninn í tvö stig en nær komust þeir ekki. Hamar átti fína syrpu undir lok hrinunnar og KA virtust andlausir. Hamar vann 19-25 og leiddi leikinn 0-2. Gestirnir þurftu því aðeins eina hrinu til viðbótar til að tryggja titilinn.

Þriðja hrina hófst á svipaðan hátt og hinar tvær þar sem að Hamar byggði smám saman upp forskot. Eftir góðan kafla náði Hamar 9-16 forystu og KA tók leikhlé til að reyna að trufla gestina. Það gekk ekki upp og Hamar vann sannfærandi sigur, 19-25. Þeir unnu leikinn því 0-3 og tryggðu sér þannig Íslandsmeistaratitilinn 2021. Hamar er því handhafi titlanna þriggja þetta tímabilið enda hefur liðið verið óstöðvandi í vetur og unnið alla leiki sína.

Stigahæstur í liði KA var Oscar Fernández Celis með 12 stig og næstur kom Miguel Mateo Castrillo með 9 stig. Hjá Hamri voru þeir Radoslaw Rybak og Wiktor Mielczarek stigahæstir með 11 stig hvor en Jakub Madej skoraði 10 stig.

Tímabilinu er því lokið í efstu deild karla þar sem að Hamar varð deildar-, bikar- og Íslandsmeistari 2021. Ársþing BLÍ fer fram þann 5. júní næstkomandi og þar verður tilkynnt um lið ársins bæði karla- og kvennamegin. Það eru fyrirliðar og þjálfarar deildanna sem velja í liðin og má ætla að Hamar eigi nokkra leikmenn í því liði.