[sam_zone id=1]

Hamar í úrslit Kjörísbikarsins

Hamar mætti Vestra í fyrri leik undanúrslita Kjörísbikars karla í Digranesi í dag.

Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi fyrstu hrinu en Hamarsmenn voru þó alltaf skrefi á undan. Í stöðunni 8-7 fóru þeir þó að rífa sig lausa frá Vestra með góðum sóknarleik og sterkum hávörnum og unnu þeir hrinuna 25-13.

Það var meiri spenna í annarri hrinunni og voru liðin nokkuð jöfn þar til undir lokin. Hamar var sterkara liðið undir lokin og unnu hrinuna 25-21.

Þriðja hrinan var Hamars alveg frá upphafi og varð hún aldrei spennandi. Hamar náði góðri forystu snemma og héldu því alveg til loka. Hrinunni lauk með 25-16 sigri Hamars og þeir þar með komnir í úrslit Kjörísbikarsins í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Radoslaw Rybak var stigahæstur í liði Hamars með 14 stig og bræðurnir Hafsteinn og Kristján Valdimarssynir bættu við 11 og 10 stigum. Hjá Vestra var Juan Manuel Escalona Rojas stigahæstur með 9 stig.

HK og Afturelding mætast í síðari undanúrslitaleiknum klukkan 16:00 og verður hægt að horfa á hann á YouTube rás Blaksambands Íslands.