[sam_zone id=1]

Hamar í úrslit eftir 3-1 sigur á Vestra

Hamar tók á móti Vestra í kvöld þegar liðin mættust í undanúrslitunum um Íslandsmeistaratitilinn.

Hamar var töluvert sigurstranglegra liðið fyrir einvígið en Vestri lék þó vel gegn Aftureldingu í 8-liða úrslitunum. Hamar vann fyrri leik liðanna á Ísafirði 1-3 en það var áhyggjuefni fyrir Hvergerðinga að Wiktor Mielczarek átti við meiðsli að stríða í leiknum. Hann gat þó klárað leikinn og tryggðu Hamarsmenn sér nokkuð sannfærandi sigur.

Í kvöld mættust liðin í Hveragerði og voru það gestirnir frá Ísafirði sem byrjuðu leikinn betur, Vestri sigraði fyrstu hrinu 25-22. Heimamenn voru hinsvegar ekki lengi að hrista það af sér með sigri í annarri hrinu 25-17 og komu sér svo í góða stöðu með yfirburðar sigri í þriðju hrinu 25-11.

Hamar kláraði svo dæmið í fjórðu hrinu með 25-18 sigri og tryggðu sér þar með sæti í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn þar sem þeir mæta KA. Hamarsmenn geta því tryggt sér þrennuna á sínu fyrsta tímabili í efstu deild karla.

Fyrsti leikurinn fer fram sunnudaginn 23. maí. Vinna þarf tvo leiki til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.