[sam_zone id=1]

Hamar enn á toppnum með fullt hús stiga

Viðburðaríkri helgi í Mizunodeildunum lauk í dag með einum kvennaleik og tveimur karlaleikjum.

Það hefur verið nóg af leikjum í Mizunodeildunum undanfarna daga enda leikið afar þétt þetta vorið. Í Mizunodeild kvenna vann Þróttur Nes 3-2 sigur gegn Þrótti Reykjavík í gær og þessi sömu lið mættust aftur í dag. Leikið var í Neskaupstað og í dag voru það gestirnir sem byrjuðu mun betur. Þær höfðu örugga forystu nánast alla fyrstu hrinuna og unnu hana sannfærandi, 18-25. Það sama var uppi á teningnum í annarri hrinu þar sem að sigur Þróttar R var enn öruggari, 15-25.

Leikur liðanna í gær fór alla leið í oddahrinu og var þessi örugga 0-2 forysta Þróttar R því nokkuð óvænt. Heimakonur voru þó ekki á því að gefast upp og var þriðja hrinan hnífjöfn. Það var ekki fyrr en í stöðunni 19-18 sem Þróttur Nes náði að slíta sig frá Þrótti R og unnu heimakonur hrinuna 25-18 eftir frábæran kafla undir lokin. Í fjórðu hrinu var enn jafnræði með liðunum en Þróttur Nes var þó yfirleitt skrefinu á undan. Þær gerðu svo aftur vel undir lok hrinu og unnnu 25-20. Þar með tryggði liðið sér oddahrinu og léku liðin sína 10. hrinu á tveimur dögum.

Þróttur Nes kom af krafti inn í oddahrinuna og náði 4-0 forystu. Þá vöknuðu gestirnir til lífsins en heimakonur leiddu þó framan af hrinu. Þróttur R átti flottan kafla um miðja hrinu og breytti stöðunni úr 9-6 í 9-10 og lokakaflinn varð æsispennandi. Langar skorpur einkenndu oddahrinuna og bæði lið börðust hart fyrir sigri. Þróttur Nes gerði betur undir lokin og vann 15-12 sigur og þar með vannst leikurinn 3-2. Þróttur Nes vann því báða leiki helgarinnar 3-2 gegn liði Þróttar Reykjavíkur.

Þróttur Nes er nú með fjögur stig eftir jafn marga leiki en Þróttur Reykjavík er með tvö stig eftir þrjá leiki. Þar með skilja liðin Álftnesinga eftir á botni deildarinnar en Álftanes er með eitt stig eftir fjóra leiki. Ljóst er að Mizunodeild kvenna er tvískipt þar sem að Þróttur Nes, Þróttur Reykjavík og Álftanes munu berjast um 4.-6. sæti deildarinnar en lið HK, Aftureldingar og KA munu berjast um efstu þrjú sætin.

Þrír leikir fara fram í Mizunodeild kvenna í næstu viku en á föstudag fær KA lið HK í heimsókn. Á laugardag mætast Þróttur Nes og Afturelding í Neskaupstað og á sunnudag mætir Þróttur Reykjavík liði Álftnesinga í Digranesi.

Í Mizunodeild karla voru tveir leikir á dagskrá og fyrri leikur dagsins var viðureign Vestra og Hamars sem fram fór á Ísafirði. Eins og við var að búast komst lið Hamars fljótlega yfir í fyrstu hrinu leiksins og byggðu þeir smám saman upp þægilega forystu. Hamar vann fyrstu hrinuna 18-25 og tók forystuna í leiknum. Liðsmenn Vestra náðu sér betur á strik í annarri hrinu þar sem að Hamar náði mest fjögurra stiga forskoti. Gestirnir voru þó sterkari undir lokin og kláruðu hrinuna 21-25.

Þriðja hrinan bauð upp á mikla skemmtun en framan af virtust Hvergerðingar þó vera að sigla öruggum sigri heim. Vestri átti flottan kafla um miðja hrinuna og náði að jafna leikinn 20-20 en síðustu stig hrinunnar voru æsispennandi. Hamar náði 21-24 forystu en aftur náðu heimamenn að jafna og þurfti upphækkun til að ljúka hrinunni. Þrátt fyrir mikla baráttu réði lið Vestra ekki við gestina og vann Hamar hrinuna 26-28 og leikinn þar með 0-3.

Fylkir og KA mættust í seinni karlaleik dagsins en Fylkir hefur átt erfitt uppdráttar í upphafi tímabils. Fyrir leik dagsins var liðið enn án stiga eftir fjóra leiki. KA var um miðja deild með sex stig eftir þrjá leiki og gat með sigri komist upp í 3. sæti deildarinnar. Fylkir hafði yfirhöndina í upphafi fyrstu hrinu en KA náði fljótt forystunni og hélt henni stærstan hluta hrinunnar. KA vann hrinuna 20-25 og tók 0-1 forystu. Önnur hrinan gekk svipað fyrir sig þar sem Fylkir byrjaði ágætlega en KA tók völdin um miðja hrinu og vann 18-25.

Framvinda þriðju hrinunnar var afar áhugaverð en KA byrjaði loks betur og náði 1-6 forystu. Eftir það var þó allur vindur úr gestunum og Fylkir gekk á lagið. Fylkismenn juku forystuna smám saman og unnu afar öruggan sigur í hrinunni, 25-16. Jafnræði var svo með liðunum í upphafi fjórðu hrinu og Fylkismenn freistuðu þess að ná í fyrsta stig sitt á tímabilinu. KA leiddi seinni hluta hrinunnar og varð munurinn mestur sex stig. Fylkismenn gáfust ekki upp og tók KA leikhlé þegar staðan var 20-22.

Fylkir gerði lokakafla hrinunnar æsispennandi og náðu heimamenn að jafna 24-24 en þá var fjörið ekki búið. Síðustu stig hrinunnar voru geysifjörug en að lokum vann lið KA 27-29 og tryggði sér 1-3 sigur. KA hefur því unnið þrjá leiki í röð og kom eini tapleikur liðsins gegn Hamri í upphafi tímabils.

Lið Hamars er nú í toppsæti deildarinnar með 18 stig eftir 6 leiki en Vestri er um miðja deild með þrjú stig eftir tvo leiki. KA er komið í 3. sæti deildarinnar eftir sigur dagsins en liðið er með 9 stig eftir fjóra leiki. Lið Fylkis er enn stigalaust eftir fimm leiki.

Á miðvikudag verður eflaust hart barist í Fagralundi þegar HK tekur á móti Hamri. Bæði lið eru taplaus á tímabilinu og verður um sannkallaðan toppslag að ræða. Sama kvöld mætast KA og Afturelding á Akureyri en bæði lið eru skammt á eftir toppliðunum tveimur.

Úrslit dagsins

Mizunodeild kvenna

Þróttur Nes 3-2 Þróttur Reykjavík (18-25, 15-25, 25-18, 25-20, 15-12). Hjá Þrótti Nes skoraði Maria Eugenia Sageras 19 stig og næst kom Maria Jimenez Gallego með 17 stig. Fjóla Rut Svavarsdóttir var stigahæst hjá Þrótti R með 22 stig og Arna Védís Bjarnadóttir bætti við 17 stigum.

Mizunodeild karla

Vestri 0-3 Hamar (18-25, 21-25, 26-28). Felix Arturo Vazques Aguilar var stigahæstur í liði Vestra með 13 stig en Juan Manuel Escalona Rojas kom næstur með 8 stig. Hjá Hamri var Wiktor stigahæstur með 16 stig og Radoslaw Rybak bætti við 15 stigum.

Fylkir 1-3 KA (20-25, 18-25, 25-16, 27-29). Eduard Constantin Bors var stigahæstur hjá Fylki með 14 stig og Bjarki Benediktsson skoraði 12 stig. Hjá KA var André Collins stigahæstur með 10 stig en næstur kom Alexander Arnar Þórisson með 9 stig.