[sam_zone id=1]

Hamar eina ósigraða liðið í Mizunodeild karla eftir 3-0 sigur á HK

HK og Hamar mættust í stórleik í Mizunodeild karla í kvöld en bæði lið voru fyrir leikinn ósigruð, Hamar með 18 stig á toppi deildarinnar eftir 6 leiki og HK með 15 stig eftir 5 leiki.

Leikurinn var nokkuð jafn til að byrja með en í stöðunni 5-5 náðu gestirnir þó að ýta HK frá sér og náðu þeir 5 stiga forskoti sem þeir héldu að mestu út hrinuna. Öflugar uppgjafir Hamars settu HK í vandræði en sóknarleikur beggja liða var öflugur og ljóst að ekkert átti að gefa eftir. Hamar fór að lokum með sigur í fyrstu hrinu 25-18.

Önnur hrina hófst líkt þeirri fyrstu en HK náðu þó yfirhöndinni fljótt sem varði þó stutt. Hamar jafnaði 15-15 og náðu að snúa hrinunni sér í vil en sóknarleikur HK var bitlaus og tók HK leikhlé í stöðunni 16-19. HK gerðu sig seka um ódýr mistök undir lok hrinu og áttu fá svör við sóknarleik gestanna. Hamar fór með sigur í hrinunni 25-21.

Gestirnir frá Hveragerði voru með mikla yfirburði í byrjun þriðju hrinu og komust yfir 7-2. HK sýndu hinsvegar karakter og náðu að jafna 10-10. Hamarsmenn gengu hinsvegar á lagið og náðu tökum á hrinunni og silgdu heim sigri 25-19 og unnu þar með leikinn 3-0. Hamar eru því eina ósigraða lið deildarinnar með 21 stig eftir 7 leiki.

Stigahæstur í leiknum var Jakub Madej leikmaður Hamars með 14 stig. Stigahæstur í liði HK var Mateusz Klóska með 8 stig.