[sam_zone id=1]

Hamar bikarmeistari karlamegin

Karlarnir léku til úrslita í Kjörísbikarnum í kjölfar úrslitaleiks kvenna og mættust þar Hamar og Afturelding.

Hamarsmenn hafa verið óstöðvandi á tímabilinu og einungis tapað einni hrinu, einmitt gegn Aftureldingu. Hamar átti auðvelt með Vestra í undanúrslitunum en Afturelding vann HK eftir langan og spennandi leik. Það var því ljóst að Mosfellingar væru ábyggilega þreyttari en það er hægt að hrista af sér þreytu í baráttu um bikarmeistaratitil.

Afturelding byrjaði leikinn frábærlega og leiddi framan af fyrstu hrinu leiksins. Hamar náði sér ekki á strik í sókninni og sáust bræðurnir Kristján og Hafsteinn Valdimarssynir lítið. Undir lok hrinunnar gaf Hamar hins vegar í og náði yfirhöndinni. Hamar vann hrinuna með minnsta mun, 25-23, og tók 1-0 forystu í leiknum. Afturelding lék vel og átti fínasta séns í leiknum, sem þeir sýndu aftur í annarri hrinu.

Þar fóru Mosfellingar aftur vel af stað en Hamar minnkaði muninn fljótlega og skiptust liðin á stigum út alla hrinuna. Hvorugt lið náði meira en eins stigs forystu frá því í stöðunni 12-11 þar til undir lokin. Afturelding elti stærstan hluta hrinunnar og náði ekki að stela henni undir lokin. Hamar vann 26-24 og var nú í góðri stöðu, 2-0 yfir.

Hamar hafði gert mikið af mistökum og hélt Afturelding góðri pressu á Hvergerðingum sem leiddi til enn fleiri mistaka. Loks náði Hamar hins vegar að byrja hrinu vel þegar þriðja hrinan fór af stað og náðu þeir snemma fjögurra stiga forystu. Hamar hélt áfram að spila af miklum krafti og gekk vel. Afturelding tók leikhlé þegar liðið var 10-15 undir og Wiktor Mielczarek fór mikinn með uppgjöfum sínum.

Afturelding átti rosalegan kafla um miðja hrinu þar sem að liðið minnkaði muninn í eitt stig, 19-18. Afturelding gaf ekkert eftir en náði þó ekki að halda í við Hamarsmenn sem unnu hrinuna 25-21. Hamar vann leikinn því 3-0 og tryggði sér Kjörisbikarmeistaratitilinn árið 2021. Þetta er jafnframt fyrsti titill Hamars í blaki, glæsilegur árangur hjá þeim.

Stigahæstur í liði Hamars var Wiktor Mielczarek með 21 stig og var hann jafnframt valinn besti leikmaður úrslitaleiksins. Í liði Aftureldingar var Sigþór Helgason atkvæðamestur með 16 stig en næstir komu Mason Casner og Nicolas Toselli með 9 stig hvor.