[sam_zone id=1]

Gullverðlaun í Ikast

Landslið Íslands í flokki U-17 liða lauk í dag keppni á NEVZA sem haldið var í Ikast undanfarna daga.

Leikið var um sæti í dag en drengirnir léku í bronsleiknum á meðan að stelpurnar gerðu sér lítið fyrir og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum. Drengjaliðið mætti Færeyjum í sínum leik en stúlkurnar mættu Danmörku í úrslitaleiknum.

Færeyjar – Ísland

Strákarnir hófu leik klukkan 9 á íslenskum tíma en færeyska liðið byrjaði leikinn betur. Færeyjar unnu fyrstu hrinuna 25-18 en íslensku strákunum gekk mun betur í annarri hrinu sem tapaðist naumlega, 25-22. Færeyska liðið vann þriðju hrinuna svo 25-17 og leikinn þar með 3-0. Íslenska liðið lýkur keppni í 4. sæti mótsins og náðu drengirnir sér í dýrmæta reynslu fyrir þau fjölmörgu mót sem eru framundan hjá íslensku landsliðunum.

Danmörk – Ísland

Íslensku stelpurnar mættu Danmörku í riðlakeppninni en það var fyrsti leikur liðsins á mótinu. Þar vann Danmörk 3-0 sigur en íslensku stelpurnar léku mun betur í næstu leikjum og unnu bæði Noreg og Færeyjar. Það var því komið að því að hefna fyrir tapið á mánudag og stelpurnar byrjuðu leikinn frábærlega. Þær unnu fyrstu hrinuna 20-25 og leiddu leikinn strax frá upphafi.

Önnur hrinan var algjörlega eign íslenska liðsins en hana vann Ísland 14-25 og liðið komið í dauðafæri á að klára leikinn og sækja gull. Þriðja hrinan byrjaði afar vel en íslensku stelpurnar náðu þó ekki að hrista þær dönsku frá sér. Undir lokin voru íslensku stelpurnar þó mun sterkari aðilinn og þær unnu þriðju hrinu 19-25. Þar með unnu þær leikinn sannfærandi, 0-3, og vinna NEVZA mótið árið 2021.

Blakfréttir óska drengjunum, stúlkunum og öllum sem komu að verkefninu innilega til hamingju með flotta viku!