[sam_zone id=1]

Gull og brons í Skotlandi

CEV Continental Tour mótinu í Skotlandi lýkur í dag en rétt í þessu spiluðu Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir til úrslita.

Bæði íslensku liðin komust alla leið í undanúrslitin og unnu Berglind og Elísabet sinn leik nokkuð sannfærandi, 2-0. Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir og Thelma Dögg Grétarsdóttir mættu sterku liði frá Skotlandi og byrjuðu vel. Skoska liðið var hins vegar sterkara á lokakaflanum í fyrstu hrinunni og unnu 21-19. Það sama átti við um aðra hrinuna þar sem var hnífjafnt en þær skosku unnu að lokum 21-19 og leikinn því 2-0. Thelma og Jóna léku því um bronsið gegn ensku pari.

Þar gerðu Thelma og Jóna sér lítið fyrir og unnu frábæran 2-1 sigur til að tryggja bronsverðlaun á mótinu. Stelpurnar unnu fyrstu hrinu en áttu erfitt uppdráttar í annarri hrinu og leikurinn fór í oddahrinu. Þar leiddu þær ensku 13-9 en Thelma og Jóna gáfust ekki upp, áttu góðan lokakafla og unnu hrinuna 17-15. Þær fengu því bronsverðlaun og í kjölfarið hófst leikur Elísabetar og Berglindar um gullið.

Elísabet og Berglind mættu skoska parinu sem vann gegn Jónu og Thelmu fyrr í dag en eftir jafna byrjun í fyrstu hrinu stungu íslensku stelpurnar af. Þær unnu fyrstu hrinu 21-9 og byrjuðu seinni hrinuna með því að komast í 5-0. Berglind og Elísabet áttu ekki í vandræðum í seinni hrinunni sem þær unnu einnig 21-9 og tryggðu sér gullið á mótinu. Ísland nælir því í gullverðlaun og bronsverðlaun á mótinu sem er frábær árangur.

Thelma og Jóna vinna því til verðlauna á fyrsta mótinu sínu í sumar en Elísabet og Berglind halda sínu striki og hafa unnið öll fjögur mótin sem þær hafa tekið þátt í það sem af er sumri.