[sam_zone id=1]

Góð byrjun á árinu hjá Galdri og Ævarri

Galdur Máni Davíðsson og Ævarr Freyr Birgisson hafa verið í fullu fjöri með Boldklubben Marienlyst í úrvalsdeild Danmerkur það sem af er ári. Síðustu tveimur leikjum liðsins fyrir áramót var frestað til nýs árs vegna COVID-19 smita og voru þeir því leiknir skömmu eftir áramót.

Marienlyst 2019-2020

Marienlyst hóf árið á heimsókn til Hvidovre VK, sem hefur í gegnum árin verið eitt besta lið Danmerkur. Gestirnir mættu ákveðnir til leiks og unnu fyrstu tvær hrinurnar sannfærandi. Restin af leiknum var meira spennandi þar sem Hvidovre unnu þriðju hrinuna 22-25 og Marienlyst þá fjórðu eftir upphækkun, 27-25, og leikinn þar með 3-1.

Næst á dagskrá var lið Aalborg Volleyball á útivelli. Aalborg hefur ekki átt góðu gengi að fagna það sem af er tímabili svo ekki var búist við mikilli spennu. Marienlyst unnu öruggan sigur í fyrstu hrinu en heimamenn í Aalborg jöfnuðu eftir nauman 23-25 sigur í annarri hrinu. Eftir það sáu þeir ekki til sólar og Marienlyst unnu öruggan 3-1 sigur.

Loks var komið að heimaleik gegn ASV Elite, en liðin höfðu mæst einu sinni áður í vetur og þar fór ASV með nauman 2-3 sigur af hólmi. Eftir vægast sagt slæma byrjun hjá Marienlyst þar sem þeir töpuðu fyrstu hrinunni með miklum mun sneru þeir bátnum við og áttu flottan leik. Næstu þrjár hrinur unnust örugglega og þriðji 3-1 sigurinn á árinu í höfn.

Ævarr hefur verið fastamaður í byrjunarliðinu í þessum leikjum og átt ágætis leiki, en Galdur Máni hefur ekki fengið mikinn tíma á vellinum hingað til.

Marienlyst er í dag í 4. sæti deildarinnar með 23 stig eftir 11 leiki. Gentofte Volley eru taplausir á toppnum en baráttan um annað sætið er gríðarlega jöfn og alveg ljóst að hvað sem er getur gerst á næstunni.