[sam_zone id=1]

Fylkir vann sinn fyrsta sigur

Leikið var í úrvalsdeildum karla og kvenna í dag en einn leikur fór fram í hvorri deild.

Báðir leikir dagsins hófust klukkan 14:00 en annar þeirra fór fram á Höfuðborgarsvæðinu og hinn á Akureyri. Fyrir norðan tók KA á móti Þrótti Fjarðabyggð í kvennaflokki en Fylkismenn mættu Þrótti Vogum í Árbænum.

KA – Þróttur Fjarðabyggð

Lið KA og Þróttar F höfðu bæði unnið fyrstu tvo leiki sína og voru með fullt hús stiga. Í leik dagsins voru það heimakonur í KA sem byrjuðu mun betur og tóku forystuna strax í upphafi fyrstu hrinu. Þær juku forskotið smám saman og unnu hrinuna auðveldlega, 25-15. Aftur byrjaði KA vel í annarri hrinu en stungu Þróttara þó ekki af líkt og í þeirri fyrstu. KA var þó sterkari aðilinn og vann hrinuna 25-19.

Þriðja hrinan var sú jafnasta til þessa og voru það Þróttarar sem voru skrefinu á undan til að byrja með. Sjö stig í röð frá KA um miðja hrinu gerðu Þrótturum hins vegar erfitt fyrir og unnu norðankonur hrinuna 25-18. KA vann leikinn þar með 3-0 og er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir þrjá leiki.

Næsti leikur KA er stórleikur gegn Aftureldingu en liðin mætast þann 13. október í Mosfellsbæ. Þróttur Fjarðabyggð er hins vegar á leið í langt frí þar sem að næsti leikur liðsins er þann 12. nóvember, sömuleiðis gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ.

Fylkir – Þróttur Vogum

Bæði Fylkir og Þróttur Vogum biðu enn eftir fyrsta sigri tímabilsins en ljóst var að það myndi breytast eftir leik dagsins. Það voru Þróttarar sem byrjuðu mun betur í fyrstu hrinu leiksins en Fylkir náði að snúa taflinu við og vann nauman 26-24 sigur í fyrstu hrinunni. Þeir byrjuðu svo afar vel í annarri hrinu og skoruðu fyrstu sex stig hrinunnar. Fylkir átti ekki í vandræðum með gestina í annarri hrinunni og vann öruggan 25-14 sigur.

Jafnræði var með liðunum í upphafi þriðju hrinu en Fylkir tók öll völd á vellinum um miðbik hrinunnar. Mestur var munurinn 9 stig og vann Fylkir 25-19. Fylkismenn unnu leikinn þar með 3-0 og tryggja sér fyrsta sigurinn og öll þrjú stigin. Fylkir leikur næst gegn Hamri þann 18. október en Þróttur Vogum heldur austur og mætir Þrótti Fjarðabyggð tvívegis dagana 16. og 17. október.