[sam_zone id=1]

Frakkar Ólympíumeistarar

Keppni í blaki karla lauk í dag þegar bronsleikurinn og úrslitaleikurinn fóru fram í Tókýó.

Lið Frakklands og rússnesku Ólympíunefndarinnar léku til úrslita í blaki karla í dag og Argentína mætti Brasilíu í leik um bronsið. Fyrir leik dagsins hafði franska liðið aldrei unnið til verðlauna á Ólympíuleikunum og besti árangur þeirra var 8. sæti. Rússneska liðið vann hins vegar til gullverðlauna í London árið 2012 og gat endurheimt gullið í dag.

Lið Frakklands og rússnesku Ólympíunefndarinnar mættust í riðlakeppninni og þar vann Frakkland. Það var eina tap rússneska liðsins á mótinu hingað til en nú var allt undir.

Argentína – Brasilía

Erkifjendurnir Argentína og Brasilía mættust í bronsleiknum í nótt en liðin höfðu mæst áður í keppninni, þá í B-riðli í upphafi móts. Sá leikur var frábær skemmtun en honum lauk með 3-2 sigri Brasilíu. Í nótt voru það Argentínumenn sem byrjuðu betur og þeir leiddu alla fyrstu hrinu leiksins. Brasilía fylgdi þeim fast á eftir en Argentína vann hrinuna 25-23 og tók 1-0 forystu í leiknum.

Dæmið snerist við í annarri hrinu þar sem að Brasilía var skrefi á undan nánast frá upphafi hrinunnar. Munurinn var ekki mikill en góður lokakafli tryggði Brasilíu 20-25 sigur og leikurinn orðinn jafn, 1-1. Argentína virtist ætla að taka forystuna aftur um miðja þriðju hrinuna en 4-11 kafli tryggði Brasilíu annan 20-25 sigur og Brassarnir leiddu nú 1-2.

Argentína lét ekki deigan síga og gjörsamlega valtaði yfir Brasilíumenn í fjórðu hrinunni, 25-17, svo leikurinn fór alla leið í oddahrinu, líkt og leikur liðanna í riðlakeppninni. Argentína var í miklu stuði eftir fjórðu hrinuna en ómögulegt var að segja til um framhaldið.

Í oddahrinunni voru það Argentínumenn sem byrjuðu mun betur. Þeir leiddu 7-3 áður en liðin skiptu um vallarhelming og virtust beittari í öllum sínum aðgerðum. Brasilía náði að jafna leikinn í stöðunni 12-12 en eftir æsispennandi lokastig vann Argentína 15-13 og þeir unnu leikinn því 3-2. Bronsverðlaunin á Ólympíuleikunum fóru því til Argentínu sem jafnar sinn besta árangur þar sem þeir eiga bronsverðlaun frá því 1988. Brasilía missir af verðlaunum eftir að hafa unnið til verðlauna á síðustu fjórum Ólympíuleikum.

Frakkland – ROC

Bæði lið byrjuðu úrslitaleikinn af miklum krafti en rússneska liðið treysti mikið á miðjusóknir sem virkuðu afar vel. Þeir klúðruðu hins vegar mörgum uppgjöfum og Frakkar voru ekki langt undan. Antoine Brizard skoraði þrjá ása í hrinunni og í kjölfarið tók franska liðið forskotið undir lokin og vann 25-23 eftir að hafa verið 18-22 undir.

Earvin N’Gapeth fór á kostum í liði Frakklands í fyrstu og annarri hrinu leiksins og Frakkarnir leiddu frá upphafi annarrar hrinu. Allt sem frönsku leikmennirnir smössuðu fór í hávörn Rússanna og út en í þau skipti sem rússneska liðið skoraði fóru flestar uppgjafir þeirra forgörðum. Frakkland vann 25-17 og leiddi 2-0.

Rússneska liðið vaknaði til lífsins í þriðju hrinunni en hnífjafnt var framan af. Undir lokin náðu þeir rússnesku flottum kafla og kláruðu hrinuna 21-25. Þeir voru því enn á lífi í baráttunni um Ólympíugullið.

Í fjórðu hrinu byrjaði Frakkland mjög vel líkt og í annarri hrinunni en smám saman saxaði rússneska liðið á forystuna og lokakaflinn varð æsispennandi. Rússarnir sigu fram úr á lokametrunum og unnu hrinuna 21-25, líkt og þriðju hrinuna. Leikurinn fór því í oddahrinu og spennan gífurleg.

Rússarnir voru mun betra liðið til að byrja oddahrinuna en Frakkland kom til baka og jafnaði 6-6. Lokakaflinn var hreint út sagt ótrúlegur og það var Frakkland sem hafði betur, 15-12, og hirti gullverðlaunin í Tókýó. Eitthvað sem enginn hefði trúað eftir að liðið rétt skreið upp úr B-riðli.