[sam_zone id=1]

Fjórir útisigrar í Mizunodeildunum

Það var nóg um að vera í Mizunodeildunum í dag en alls fóru fjórir leikir fram í karla- og kvennaflokki.

Mizunodeild karla var meira áberandi í dag enda þrír leikir á dagskrá. Dagurinn hófst með leik Þróttar Fjarðabyggð gegn Hamri í Neskaupstað og stuttu síðar hófust tveir leikir á höfuðborgarsvæðinu. Fylkir tók á móti HK í Árbænum og Álftnesingar fengu Vestra í heimsókn. Kvennamegin tók Þróttur Reykjavík á móti KA í Digranesi.

Þróttur Fjarðabyggð – Hamar

Hvergerðingar sóttu Þróttara heim og voru mun sigurstranglegri enda ósigraðir á tímabilinu. Þróttur hefur ekki náð að halda í við efstu lið deildarinnar og var fyrir leik með 12 stig eftir 10 leiki, 6 stigum á eftir Aftureldingu sem hafði spilað jafn marga leiki. Hamar gat unnið sinn ellefta deildarsigur í jafnmörgum leikjum og þar með styrkt stöðu sína á toppnum enn frekar. Leikurinn var ansi jafn til að byrja með en Hamar tók fljótt öll völd á vellinum.

Um miðja hrinu gerðu Hamarsmenn breytingu á liði sínu og skiptu þeir um uppspilara. Í kjölfarið breyttist leikurinn töluvert og Þróttur raðaði inn stigunum. Munurinn hafði mestur verið 12 stig, 10-22, en Þróttur átti öflugan kafla undir lokin. Hamar vann hrinuna þó 21-25 og leiddi 0-1. Önnur hrina var einnig jöfn til að byrja með en í þetta skiptið héldu Þróttarar í við gestina allt fram að lokum hrinunnar. Hamar vann þó aftur, nú 23-25, og var með þægilega 0-2 forystu.

Hvergerðingar spiluðu af krafti í þriðju hrinu leiksins og gerðu heimamönnum afar erfitt fyrir. Hamar vann hrinuna sannfærandi, 16-25, og leikinn þar með 0-3. Wiktor Mielczarek skoraði 16 stig fyrir Hamar og Jakub Madej kom næstur með 12 stig. Hjá Þrótti var Andri Snær Sigurjónsson stigahæstur með 9 stig en Þórarinn Örn Jónsson og Miguel Angel Ramos Melero skoruðu 8 stig hvor. Hamar er nú með 33 stig eftir 11 leiki og þarf örfá stig til viðbótar til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn.

Hamar mætir Þrótti Vogum miðvikudaginn 24. mars og ætti liðið að ná í sinn tólfta deildarsigur þar. Næsti leikur Þróttar Fjarðabyggð verður á útivelli gegn Aftureldingu miðvikudaginn 31. mars.

Fylkir – HK

Fylkismenn unnu gegn Þrótti Vogum í lok febrúar og voru með 4 stig fyrir leik dagsins. Þeir eiga enn raunhæfan möguleika á að ná Álftnesingum og þurfa nauðsynlega á stigum að halda ætli þeir sér að klífa upp stigatöfluna. HK var í 2. sæti deildarinnar og hafði leikið flesta leiki allra liða deildarinnar, ásamt Þrótti Vogum. Þeir þurftu sömuleiðis á öllum þremur stigunum að halda enda í harðri baráttu við KA um 2. sætið.

Fylkir lék án Bjarka Benediktssonar, stigahæsta leikmanns liðsins á tímabilinu, en hann var frá vegna meiðsla. Þrátt fyrir það voru Fylkismenn sprækir og stóðu í HK alla fyrstu hrinuna. HK virtist vera með tökin um miðja hrinu en Fylkir átti flottan lokakafla. HK vann hrinuna að lokum 22-25 en Fylkir gerði áfram vel í annarri hrinu. Staðan var jöfn alla hrinuna en að þessu sinni var það sterkur lokakafli HK-inga sem gerði út um hrinuna sem gestirnir unnu 23-25.

Þriðja hrinan náði aldrei sömu spennu og hinar tvær og fóru HK-ingar með þægilegan 14-25 sigur. Þeir unnu leikinn því 0-3 og eru nú með 29 stig eftir 12 leiki. Fylkir er enn með 4 stig og hefur spilað 11 leiki. Næsti leikur HK er ekki fyrr en eftir páska en liðið heldur til Ísafjarðar miðvikudaginn 7. apríl. Fylkir á hins vegar hörkuleik gegn Þrótti Vogum miðvikudaginn 31. mars.

Álftanes – Vestri

Hópurinn hjá Álftnesingum hefur verið þunnur þetta tímabilið en byrjunarliðið er þó nokkuð sterkt. Þeir hafa ekki náð í mörg stig þrátt fyrir góða spilamennsku á köflum og þurftu að spila vel gegn öflugu liði Ísfirðinga. Fyrir leikinn var Vestri með 11 stig eftir 8 leiki og enn í baráttu um 4. sæti deildarinnar, það síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni. Álftnesingar léku án Ingólfs Hilmars í dag en hann er spilandi þjálfari og uppspilari liðsins. Róbert Karl Hlöðversson tók því að sér uppspilið í dag, líkt og gegn Hamri í 8-liða úrslitum Kjörísbikarsins.

Vestri lék vel á föstudag þegar liðið vann gegn Aftureldingu og þeir héldu því áfram í dag. Fyrsta hrina varð aldrei spennandi og vann Vestri hana auðveldlega, 14-25. Dæmið snerist við í upphafi annarrar hrinu og náði Álftanes 9-3 forystu. Það dugði þó skammt og náði Vestri að jafna og komast yfir undir lok hrinunnar. Álftanes hafði þó 23-21 forystu í blálok hrinunnar en Vestri skoraði næstu fjögur stig og vann hrinuna 23-25.

Álftnesingar náðu ekki að halda þessu áfram í þriðju hrinu og tók Vestri aftur völdin. Gestirnir unnu hrinuna sannfærandi, 19-25, og unnu leikinn 0-3. Vestri komst með sigrinum upp fyrir Þrótt Fjarðabyggð og situr í 5. sæti með 14 stig eftir 9 leiki. Afturelding er þar rétt á undan með 18 stig eftir 10 leiki. Vestri mætir KA sunnudaginn 28. mars og getur blandað sér vel í baráttuna um efstu sætin með sigri þar. Vestri og Álftanes mætast svo á Ísafirði miðvikudaginn 31. mars.

Þróttur Reykjavík – KA

Kvennamegin tóku Þróttarar úr Reykjavík á móti liði KA. Þróttarar leika heimaleiki sína í Digranesi þetta tímabilið og var þetta því annar leikur KA í Kópavogi þessa helgina. Þær unnu 2-3 sigur gegn HK í gær og gátu jafnað HK að stigum með sigri. Þróttur R er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni en liðið situr á botninum eins og er. Pakkinn í 4.-6. sæti er þó þéttur og hvert stig getur breytt miklu.

Heimakonur byrjuðu leikinn frábærlega og var allt hnífjafnt um miðja hrinu. Þá kom öflug skorpa hjá Þrótturum sem leiddu 23-18. KA barðist vel undir lokin en náði ekki að vinna hrinuna. Þróttur leiddi 1-0 eftir 25-22 sigur í fyrstu hrinu. Önnur hrina þróaðist nákvæmlega eins og sú fyrsta til að byrja með. Aftur var jafnt um miðja hrinu en nú voru það gestirnir sem stungu nánast af og staðan var orðin 16-21 fyrir KA. Þróttur minnkaði muninn en KA kláraði hrinuna vel og vann 20-25.

Þriðja hrinan var ólík fyrri tveimur hrinunum og varð aldrei spennandi. KA hafði góð tök á leiknum og náði mest 12 stiga forystu. KA vann hrinuna auðveldlega, 16-25, og virtist ætla að fara með 1-3 sigur nema Þróttur gæti snúið leiknum við. KA tók það hins vegar ekki í mál og leiddi nánast alla fjórðu hrinu. Aftur var munurinn orðinn mikill um miðja hrinu en Þróttur lagaði stöðuna aðeins undir lokin. KA vann sannfærandi, 19-25, og vann því mikilvægan 1-3 sigur.

Með sigrinum jafnar KA lið HK að stigum í 2. sæti deildarinnar en KA hefur spilað 12 leiki á meðan að HK hefur einungis spilað 10 leiki. HK hefur því enn yfirhöndina en Afturelding kemur rétt á undan liðunum tveimur með 26 stig eftir 11 leiki. Þróttur R situr enn á botninum með 4 stig og hefur liðið nú spilað 9 leiki.

Bæði lið eiga erfiða leiki fyrir höndum á næstu dögum en Þróttur R mætir Aftureldingu í Mosfellsbæ og fer leikurinn fram föstudaginn 26. mars. Miðvikudaginn 31. mars á liðið svo heimaleik gegn HK en eftir það koma mikilvægir leikir gegn Álftanesi og Þrótti Fjarðabyggð. Lið KA spilar næst mánudaginn 29. mars en þá fá norðankonur Þrótt Fjarðabyggð í heimsókn. Eftir það fá þær góða hvíld fyrir stórleikinn gegn Aftureldingu sem fer fram þann 17. apríl.