[sam_zone id=1]

Fjölgun liða í Mizunodeild karla

Liðum í Mizunodeild karla fjölgar talsvert milli tímabila og samanstendur deildin af níu liðum í vetur.

BLÍ gaf það út í vikunni að formlegur skráningarfrestur væri liðinn og endanlegur fjöldi liða í Mizunodeildunum væri ljós. Í Mizunodeild kvenna verða sömu sex lið og á síðasta tímabili en þau eru Afturelding, Álftanes, HK, KA, Þróttur Neskaupstað og Þróttur Reykjavík. Það verða því ekki miklar breytingar á kvennadeildinni en ekki er hægt að segja það sama um karladeildina.

Metfjöldi liða mun taka þátt í Mizunodeild karla tímabilið 2020/21 þar sem að alls taka níu lið þátt. Hamar, Fylkir og Þróttur Vogum munu öll færast upp úr Benectadeildinni og taka þátt í Mizunodeildinni í vetur en fyrir voru sex lið í Mizunodeildinni. Auk þessara þriggja liða eru þar fyrir Afturelding, Álftanes, HK, KA, Vestri og Þróttur Neskaupstað.

Leikjaniðurröðun er ekki tilbúin en BLÍ mun birta hana bráðlega. Stefnt er að því að hefja leik í úrvalsdeildunum þann 18. september en hafa þarf í huga gildandi reglur um sóttvarnir og samkomur.