[sam_zone id=1]

Fínn leikur Bliesen gegn sterku liði Grafing

TV Bliesen lék í 2. deild Þýskalands í gær þegar liðið mætti sterku liði Grafing á útivelli.

Máni Matthíasson og liðsfélagar hans í Bliesen hafa átt erfitt uppdráttar í síðustu leikjum enda hafa andstæðingarnir verið í toppbaráttunni. Engin breyting varð á því í gær þegar Bliesen sótti lið Grafing heim sem sat í 2. sæti deildarinnar. Bliesen hefur átt fína leiki gegn sterku liðunum en ekki náð að halda út heilan leik og sækja stig.

Heimamenn í Grafing voru sterkari aðilinn í fyrstu hrinu og höfðu þægilegt forskot alla hrinuna. Þeir unnu hana 25-20 en Bliesen komst á gott skrið í annarri hrinunni. Þar byrjuðu þeir afar vel og leiddu 3-10. Grafing áttu engin svör við frábæru spili Bliesen í hrinunni og lauk hrinunni með 15-25 sigri Bliesen sem jafnaði leikinn þar með 1-1.

Þriðja hrinan gekk ekki vel hjá Bliesen til að byrja með og virtist Grafing ætla að fara létt með gestina. Um miðja hrinuna hrökk Bliesen hins vegar í gang aftur og náði að minnka muninn í eitt stig. Það dugði þó ekki til og Grafing kláraði hrinuna 25-21. Í fjórðu hrinunni hélt Bliesen ágætlega í við heimamenn en um miðja hrinuna gaf Grafing í og vann sannfærandi 25-16 sigur. Grafing vann leikinn þar með 3-1.

Máni Matthíasson var valinn besti leikmaður Bliesen í leiknum og er það í annað skipti í þremur leikjum sem hann hlýtur þá nafnbót. Vegna kórónuveirunnar hafa einhverjar breytingar orðið á leikjaplani deildarinnar og hefur Bliesen spilað meirihluta leikja sinna undanfarið á útivelli. Nú er hins vegar komið að fimm heimaleikjum í röð og verður næst leikur þann 13. mars gegn Delitzsch.