[sam_zone id=1]

Evrópumót kvenna: Riðlakeppninni lokið

Evrópumót kvenna í blaki er enn í fullum gangi og lauk riðlakeppninni í gær. Liðin hafa svo fengið hvíld í dag áður en að 16-liða úrslitin hefjast síðan á morgun.

Riðill A

Í A-riðli voru það Serbar sem höfðu þó nokkra yfirburði í riðlinum og sigruðu alla sína leiki. Síðasti leikur þeirra var þó spennandi en þá mætti liðið Rússlandi, þar sem leikurinn fór alla leið í oddahrinu en endaði þó að lokum með Serbneskum sigri.
Rússarnir náðu öðru sæti en þar á eftir koma Frakkland og Belgía með 3 sigurleiki eins og Rússar en færri stig.
Það voru síðan Bosnía og Hersegóvína og Azerbaijan sem ráku lestina og kveðja mótið eftir riðlakeppnina.

Riðill B

B-riðillin var æsispennandi allt til loka bæði á toppi og botni. Búlgaría tók eftsta sætið með sigri á Póllandi í síðasta leik sínum. Pólland endar í öðru sæti rétt á undan Þýskalandi sem þarf að sætta sig við þriðja sætið þrátt fyrir að tapa einungis einum leik. Það voru síðan Tékkar sem tóku fjórðu sætið og skildu þar með Spánverja og Grikki eftir og kveðja þessi lið keppnina að sinni.

Riðill C

Ítalía er eitt af tveimur liðum í mótinu sem hefur einungis tapað einni hrinu til þessa og hafa þær verið að spila mjög vel og eru klárlega eitt af sigurstranglegustu liðum keppninnar. Heimakonur í Króatíu hafa einnig verið að spila mjög vel og náðu öðru sætinu í riðlinum. Hvíta-Rússland kom síðan þar á eftir.
Baráttan um fjórða sætið var síðan æsispennandi og munaði þar einungis einu stigi á Ungverjum og Slóvakíu. Ungverjar höfðu þar betur og skilja því Slóvakíu og Sviss eftir í sárum eftir æsispennandi keppni.

Riðill D

Tyrkland hefur eins og Ítalía einungis tapað einni hrinu á mótinu og eru eitt af toppliðunum í þessari keppni. Þar á eftir komu síðan Hollendingar sem eru til alls líklegar í þessu móti. Úkraína tók þriðja sætið í riðlinum og það voru síðan nágrannar okkar í Svíþjóð sem komu öllum á óvart og tryggðu sig áfram í 16-liða úrslitin á sínu fyrsta stórmóti í yfir 40 ár. Frábær árangur hjá þeim.
Það voru síðan Finnar og heimakonur í Rúmeníu sem sátu eftir og halda því heim á leið.

16-liða úrslitin hefjast á morgun og verða leikin næstu þrjá daga en hér að neðan má sjá hvaða lið mætast.

Laugardagur 28.8

Búlgaría-Svíþjóð     20:30 CET
Holland-Þýskaland   17:30 CET

Sunnudagur 29.9

Króatía-Frakkland   17:00 CET
Tyrkland-Tékkland  17:30 CET
Serbía-Ungverjland 20:00 CET
Pólland-Úkraína      20:30 CET

Mánudagur 30.8

Ítalía-Belgía    17:00 CET
Rússland-Hvíta-Rússland  20:00 CET

Allir leikirnir eru sýndir á www.eurovolley.com gegn vægu gjaldi.

Nánari upplýsingar og tölfæði um mótið má síðan finna hér.