[sam_zone id=1]

Evrópumót kvenna: Lítil spenna í 8-liða úrslitunum

8-liða úrslit kvenna í Evrópumótinu í blaki fóru fram síðastliðna tvo daga. Það er óhætt segja að spennan hafi ekki verið eins mikil í þessum leikjum og fyrri umferðum.

Holland mætti Svíþjóð í fyrsta leik 8-liða úrslitanna en Svíþjóð hafði slegið Búlgaríu frekar óvænt út í 16-liða úrslitum. Fyrsta hrinan var jöfn og ljóst að Svíar ætluðu að skilja allt eftir á gólfinu. Það voru þó Hollendingar sem voru sterkari á lokasprettinum og unnu eftir upphækkun 27-25. Eftir þetta virtist orkan búinn hjá þeim sænsku og Hollendingar unnu næstu tvær hrinur nokkuð örugglega 25-16 og 25-19. Ævintýri Svía því lokið í bili en þær sænsku stóðu sig frábærlega á sínu fyrsta stórmóti í langan tíma og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Aðrir leikir fóru einnig eftir bókinn þar sem stórveldin þrjú, Ítalía, Tyrkland og Serbía unnu öll sína leiki. Þessi lið áttu í litlum erfiðleikum með andstæðinga sína. Það voru helst Serbar sem lentu í vandræðum þar sem Frakkar komu á óvart og sigruðu fyrstu hrinuna. Þær frönsku héldu svo aðeins í við þær serbnesku á köflum en það var þó ekki nóg til að koma í veg fyrir Serbneskan sigur.

8-liða úrslit:

Svíþjóð – Holland 0-3 (25-27, 16,25, 19-25)
Stigahæstar: Isabella Haak Svíþjóð 18 stig, Nika Daalderop Holland 16 stig

Tyrkland – Pólland 3-0 (25-18, 25-14, 25-23)
Stigahæstar: Ebrar Karakurt Tyrkland 20 stig, Magdalena Stysiak Pólland 14 stig

Ítalía – Rússland 3-0 (25-20, 25-8, 25-15)
Stigahæstar: Paola Egonu Ítalía 15 stig, Arina Fedorovtseva Rússland 7 stig

Serbía – Frakkland 3-0 (22-25, 25-18, 25-7, 25-20)
Stigahæstar: Tijana Boskovic Serbía 27 stig, Amélie Rotar Frakkland 15 stig

Undanúrslitin fara síðan fram á föstudaginn en þá mætast fyrst Tyrkland og Serbía og seinna um kvöldið spila síðan Holland og Ítalía en hægt er að sjá alla leikina á eurovolley.tv gegn vægu gjaldi.

Nánari upplýsingar um mótið má finna hér.