[sam_zone id=1]

Evrópumót kvenna hefst í dag – Upphitun

Evrópumót kvenna hefst í dag með tveimur leikjum en í opnunarleikjunum taka Búlgaría á móti Grikklandi og Rúmenía mætir Tyrklandi.
Mótið fer að þessu sinni fram í fjórum mismunandi löndum en það eru, Búlgaría og Rúmenía ásamt Serbíu og Króatíu sem halda mótið.

Leikið er í fjórum riðlum og eru riðlarnir svona skipaðir.

EuroVolleyW pools confirmed following DOL at iconic Belgrade City Hall |  EuroVolley

Við ætlum aðeins að hita upp fyrir mótið hér að neðan og fara yfir það hverju fólk ætti að vera að fylgjast með á mótinu.

Sigurstranglegasta liðið:

Það eru nokkur lið sem koma til greina hér að okkar mati og eiga möguleika á því að vinna mótið. Ítalía hefur verið á stöðugri uppleið síðustu ár og þetta gæti verið árið þar sem allt smellur hjá þeim. Tyrkir hafa einnig verið að gera gott mót síðustu ár og eru líklegar til að valda usla.
Við getum þó ekki horft framhjá núverandi Evrópumeisturum Serbíu sem hafa unnið síðustu tvö evrópumót og náðu núna síðast í bronsverðlaun á Ólympíuleikunum. Við teljum að Serbía vinni þriðja titilinn í röð og sanni enn og aftur úr hverju þær eru gerðar og að þær séu besta lið evrópu.

Svarti hesturinn:

Þarna eru einnig nokkur lið sem að við teljum og gætu komið á óvart og farið langt og jafnvel unnið keppnina ef allt fellur með þeim. Pólsku stelpurnar hafa verið að ná góðum árangri á síðustu mótum og náðu í fjórða sætið á síðasta evrópumóti, þetta gæti verið árið þeirra.
Við bendum þó fólki á að fylgjast vel með Þýskalandi, það hefur ekki farið mikið fyrir þýska liðinu síðustu ár fyrir utan tvö silfurverðlaun fyrir tæpum áratug síðan. Við teljum að þýska liðið eigi eftir að koma fólki á óvart og fara langt í keppninni.

Fylgist með:

Á þessu móti eru nokkrar af bestu blakkonum heims að sýna listir sínar. Þar er hægt að nefna Tijönu Boskovic hjá Serbíu og Paola Egonu hjá Ítalíu sem eru tvær af bestu blakkonum í heiminum í dag.
Við ætlum þó að biðja fólk að fylgjast vel með Isabellu Haak frá Svíþjóð, þessi stelpa hefur skotist hratt upp á stjörnuhimininn síðustu ár þrátt fyrir að vera einungis nýorðin 22 ára gömul. Hún spilar núna með stórliði Vakifbank frá Istanbul og er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót með Svíþjóð. Það er ljóst að það er erfitt verkefni sem bíður hennar og við munum fylgjast sérstakleg vel með Isabellu Haak og sjá hvernig henni og félögum hennar í sænska landsliðinu vegnar.

Isabelle Haak, Sweden | Photo By AG

Þetta er það sem við hér á blakfréttum erum spenntust fyrir og hvernig við höldum að mótið spilist, en það er alveg ljóst að það verður nóg af góðu blaki framundan og því um að gera að horfa á hágæðablak næstu daga og vikur.