[sam_zone id=1]

Enn eitt gullið í Danmörku

Berglind Gígja Jónsdóttir og Elísabet Einarsdóttir mættu aftur á dönsku mótaröðina um helgina þegar þær léku á Middelfart City Grand Slam.

Berglind og Elísabet hafa verið óstöðvandi það sem af er tímabili og unnið öll mótin sem þær hafa tekið þátt í. Nú síðast unnu þær Smáþjóðamót sem haldið var í Skotlandi en nú voru þær komnar aftur til Danmerkur og léku á stóru móti í Middelfart. Andstæðingurinn í fyrsta leik á föstudag var Freja Holm Barkler / Charlene Manuella Mayo Johnsen en sá leikur vannst í oddahrinu. Stelpurnar léku næst á laugardag um að komast í undanúrslit mótsins og unnu 2-0 sigur gegn Sofia Nørager Bisgaard / Cecilie Køllner Olsen.

Stelpurnar höfðu þar með tryggt sér sæti í undanúrslitum mótsins sem hófust á sunnudag. Signe Zibrandtsen Haaning /Anneka Hastings voru mótherjarnir í undanúrslitunum en Berglind og Elísabet unnu 2-0 sigur gegn þeim eftir mikla spennu. Enn einn úrslitaleikurinn var því raunin fyrir íslensku stelpurnar sem mættu þar Sofia Nørager Bisgaard / Cecilie Køllner Olsen öðru sinni.

Berglind og Elísabet fóru létt með fyrstu hrinu leiksins og unnu hana 11-21 en í annarri hrinu var spennan mun meiri. Ísland átti möguleika á að tryggja sigurinn undir lokin en þær dönsku komu til baka og unnu 25-23 sigur. Leikurinn fór því í oddahrinu þar sem enn var hnífjafnt. Eftir mikla baráttu tryggðu íslensku stelpurnar sér 14-16 sigur og þar með sigur á mótinu. Berglind og Elísabet halda því frábæru gengi sínu áfram á dönsku mótaröðinni.