[sam_zone id=1]

Endurkoma KA í Mosfellsbæ

Stórleikur kvöldsins fór fram í Mosfellsbæ þar sem að Afturelding tók á móti liði KA.

Tveir leikir fóru fram í Mizunodeild kvenna í kvöld en það var annars vegar viðureign Álftnesinga og HK. Hins vegar mættust Afturelding og KA í Mosfellsbæ en þar var búist við spennandi leik enda börðust þessi lið um titilinn síðasta vor. Fyrir kvöldið var HK í fyrsta sæti deildarinnar með 9 stig, Afturelding í öðru sætinu með 8 stig og KA í því þriðja með 6 stig. Álftanes var með eitt stig en leitaði enn að fyrsta sigri sínum á tímabilinu.

Leikur Aftureldingar og KA var hnífjafn til að byrja með og fyrsta hrinan var æsispennandi. KA hafði 22-24 forystu undir lok hrinunnar en þá skoruðu heimakonur fjögur stig í röð og unnu hrinuna 24-26. Enn var jafnræði með liðunum í annarri hrinunni og skiptust liðin á stigum stóran hluta hennar. Að þessu sinni seig Afturelding hins vegar fram úr stuttu eftir miðbik hrinunnar og vann þægilegan sigur, 25-19.

Afturelding leiddi því 2-0 og KA með bakið upp við vegg. Norðankonur byrjuðu vel í þriðju hrinu og náðu 2-5 forystu en Afturelding jafnaði leikinn strax í 5-5. Afturelding var svo skrefinu á undan eftir þessa góðu byrjun KA og hafði 24-20 forystu undir lokin. Nú var endurkomu KA liðsins, öfugt við fyrstu hrinu leiksins. KA skoraði síðustu 6 stig hrinunnar og unnu ótrúlegan 24-26 sigur. Staðan því orðin 2-1 og allt opið.

Eftir jafna byrjun á fjórðu hrinunni komst KA á gott skrið og leiddi 9-15 en þá varð enn ein sveiflan. Afturelding minnkaði muninn í 15-16 en nær komust þær ekki. Lið KA var mun sterkara á lokakafla hrinunnar og vann 19-25 sigur sem tryggði liðinu oddahrinu.

Fyrri hluti oddahrinunnar var hnífjafn og þegar skipt var um vallarhelminga hafði munurinn aldrei orðið meiri en eitt stig. Afturelding náði 12-9 forystu áður en kom að síðasta viðsnúningi leiksins. KA skoraði síðustu 6 stig leiksins og vann oddahrinuna 12-15. Þar með tryggði KA sér afar mikilvægan sigur í toppbaráttu deildarinnar.

Álftnesingar tóku svo á móti HK í hinum leik kvöldsins og þar voru það gestirnir sem höfðu mikla yfirburði snemma leiks. HK vann fyrstu hrinuna auðveldlega, 13-25, en Álftanes veitti meiri mótspyrnu í annarri hrinu. Henni lauk þó með 18-25 sigri gestanna sem leiddu leikinn því 0-2. Álftnesingar léku enn betur í þriðju hrinunni sem liðið vann nokkuð örugglega, 25-17, eftir ótrúlegan kafla um miðja hrinuna þar sem að liðið skoraði 9 stig í röð.

Loks var meiri spenna í fjórðu hrinu leiksins en þá varð munurinn aldrei meiri en þrjú stig. Liðin skiptust þó á að hafa forystuna en undir lokin virtust heimakonur ætla að ná sér í oddahrinu í stöðunni 21-18. HK komst þá á gott skrið og náði að tryggja sér 22-25 sigur í hrinunni. HK vann leikinn þar með 1-3 og fær öll þrjú stigin.

HK heldur því toppsæti deildarinnar með fullt hús stiga, 12 stig eftir fjóra leiki. Í öðru sætinu er lið Aftureldingar sem er nú með 10 stig eftir fjóra leiki. KA kemur þar á eftir í þriðja sætinu með 8 stig eftir fimm leiki. Álftanes er enn með eitt stig eftir fjóra spilaða leiki.

Þróttur Nes og Þróttur Reykjavík mætast tvívegis um helgina en fyrri viðureignin fer fram klukkan 16:00 á laugardag en sú seinni klukkan 13:00 á sunnudag. Leikirnir fara fram í Neskaupstað.

Úrslit kvöldsins

Afturelding 2-3 KA (24-26, 25-19, 24-26, 19-25, 12-15). Thelma Dögg Grétarsdóttir var stigahæst hjá Aftureldingu með 20 stig og María Rún Karlsdóttir bætti við 18 stigum. Hjá KA var Mireia Orozco atkvæðamest með 20 stig og Paula Del Olmo Gomez kom næst með 19 stig.

Álftanes 1-3 HK (13-25, 18-25, 25-17, 22-25).